Ábyrgð vinnumarkaðarins í efnahagsástandinu var meðal umræðuefna í viðtalinu. Ásgeir segir að hann hefði vonað að verkalýðshreyfingin „myndi átta sig á því að það að elta verðbólguna í launahækkunum myndi leiða til vaxtahækkana.“
Það hefði gerst engu að síður og nú vildu verkalýðsforingjarnir efna til útifunda til að mótmæla afleiðingum eigin gjörða.
„En auðvitað er ekki bara við verkalýðshreyfinguna að sakast, Samtök atvinnulífsins verða líka að huga að þessu; það hefnir sín fyrir þeim líka að gera samninga umfram það sem innistæða er fyrir,“ segir Ásgeir.
Seðlabankastjóri veitir svo innsýn á bak við tjöldin.
„Ríkissáttasemjari var hringjandi hingað til þess að hafa áhrif á Seðlabankann. Við ættum ekki að hækka vexti og helst ekki tjá okkur af því að formaður VR væri ekki stöðugur í skapi og hlypi út af fundum ef hann sæi eitthvað úr Seðlabankanum. Reyndu síðan að fresta vaxtaákvörðunarfundi og svo framvegis. Það er ekkert annað en meðvirkni,“ segir Ásgeir.
Hann segist ekki hafa trú á öðru en að „allir þeir sem tóku þátt í þeim leikþætti“ að ganga að samningaborðinu sundraðir og í samkeppni hafi dregið lærdóm af því hvernig fór.
Hér má finna samantekt mbl.is úr viðtalinu við Ásgeir og hlekk á viðtalið í Morgunblaðinu.