Handbolti

Elísa­bet orðin að­stoðar­þjálfari Stjörnunnar | Ó­víst hvort hún spili á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elísabet hefur verið með betri línumönnum landsins undanfarin ár.
Elísabet hefur verið með betri línumönnum landsins undanfarin ár. Vísir/Hulda Margrét

Línumaðurinn Elísabet Gunnarsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari Stjörnunnar í Olís-deild kvenna í handbolta. Ekki er vitað hvort Elísabet mun spila áfram með liðinu.

Frá þessu greinir handknattleiksdeild Stjörnunnar í dag. Þar segir að hún muni einnig vera aðalþjálfari 3. og 7. flokks kvenna.

Elísabet er uppalin í ÍR en gekk fyrst í raðir Stjörnunnar árið 2004. Eftir stutt stopp í Safamýrinni með Fram – þar sem hún varð Íslandsmeistari árið 2013 – sneri hún aftur í raðir Stjörnunnar og hefur orðið bæði Íslands- og bikarmeistari með félaginu.

„Lísa hefur einnig gert það gott í búningi íslenska landsliðsins og hefur spilað 64 leiki fyrir Íslands hönd. Ásamt þessum árangri hefur Lísa reynslu af þjálfun yngri flokka þar sem hún hefur miðlað reynslu sinni við góðan orðstír,“ segir í tilkynningu Stjörnunnar.

Stjarnan endaði í 3. sæti Olís-deildarinnar á nýafstaðinni leiktíð, liðið féll svo úr leik gegn verðandi Íslandsmeisturum Vals í undanúrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×