Handbolti

Ísak og Róbert: Sástu þetta rugl?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fögnuðurinn í Eyjum var mikill í leikslok.
Fögnuðurinn í Eyjum var mikill í leikslok. Vísir/Vilhelm

Ísak Rafnsson og Róbert Sigurðaron hafa myndað frábært varnarpar í vörn Íslandsmeistaraliðs ÍBV í vetur. Róbert heldur í atvinnumennsku í sumar og segir frábært að kveðja á þessum nótum.

„Það er ekki hægt að koma því í orð, þetta er bara endalaust hamingja,“ sagði Ísak eftir að titillinn var í höfn í kvöld aðspurður hvernig tilfinningin væri. 

„Frábær, við líktum þessu við gott samband og þetta er búið að vera það,“ bætti Róbert við. Ísak kom til ÍBV fyrir þetta tímabil og Róbert yfirgefur liðið í sumar. Þeir náðu því aðeins einu tímabili saman og viðurkenndi að það væri sorglegt að skiljast að strax.

„Jú, í rauninni er það. Þetta verður fjarsamband núna.“

„Robbi á svo sannarlega skilið að prófa að spila erlendis. Hann er frábær varnarmaður og fyrst og fremst frábær maður,“ sagði Ísak og Róbert var ekki lengi að ausa hrósi yfir liðsfélaga sinn.

„Ég get sagt fullt, gull af manni algjörlega alla leið í gegn.“

Þeir félagar sögðu það frábært að ná að tryggja titilinn fyrir framan stuðningsmenn ÍBV á heimavelli en stemmningin í Eyjum í kvöld var frábær.

„Gjörsamlega geðveikt. Þetta er æðislegt samfélag, sástu þetta rugl? Hvernig er ekki hægt að njóta þess að spila í svona aðstæðum,“ sagði Ísak og Róbert viðurkenndi að það yrði erfitt að yfirgefa Vestmannaeyjar.

„Það er erfitt, bara þegar þú segir það verður maður klökkur og maður tárast aðeins. Þetta er að verða raunverulegt og þess vegna ætlar maður að njóta með fólkinu í kvöld og næstu daga.“

Þeir lofuðu því að titlinum yrði fagnað með stæl.

„Stærsta partý sem hefur verið haldið í Vestmannaeyjum, það verður í kvöld, á morgun og hinn,“ sögðu þeir félagar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×