Innlent

Fæðu­ó­öryggi hrjáir 14 til 17 prósent ís­lenskra há­skóla­nema

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Vilhelm/aðsend

14-17 prósent íslenskra háskólanema lifa við fæðuóöryggi samkvæmt nýrri rannsókn sem framkvæmd var á menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Gréta Jakobsdóttir, lektor í heilsueflingu við Háskóla Íslands, segir afleiðingar fæðuóöryggis áhyggjur og kvíði í auknum mæli og næringarskortur sem veldur einbeitingarskorti og orkuleysi.

Þá geti næringarskortur að auki valdið blóðleysi og vítamínsskorti sem auka líkur á alvarlegum sjúkdómum síðar á lífsleiðinni.

Gréta lýsir fæðuóöryggi sem ótryggum aðgangi að næringarríkum og öruggum mat sem hægt er að nálgast á viðeigandi hátt.

Rannsóknin var á sama tíma framkvæmd í ellefu öðrum ríkjum í Evrópu en þær niðurstöður liggja enn ekki fyrir.

„Það sem við sáum líka er að námsárangur var verri hjá fæðuóöruggum,“ segir Gréta. Hún segir niðurstöðurnar hafa sýnt að heimsfaraldurinn hafði neikvæðari áhrif á námsárangur þeirra sem lifðu við fæðuóöryggi.

„Ef maður er með 30 nemenda hóp þá eru kannski fjórir til fimm fæðuóöruggir í hópnum,“ segir Gréta sem segir hlutfall háskólanema með fæðuóöryggi hátt. 

Hún bendir á að rannsókn af þessu tagi hafi ekki verið framkvæmd hérlendis áður og því ekkert fordæmi fyrir niðurstöðum.

Gréta veltir upp hugmyndum um matarkort fyrir háskólanema eða fría hádegismáltíð til að tryggja aðgang nemenda að í minnsta lagi einni máltíð á dag. Hún segir vandamálið í grunninn snúast um fjármuni og hvaðan þeir eiga að koma til þess að hægt sé að sporna gegn því.

Hún segir grunnþekkingu á mat og næringu mikilvæga til þess að góðar ákvarðanir um fæðuinntöku séu teknar.


Tengdar fréttir

Risastórt skref fyrir foreldra í námi

Á Íslandi er algengt að háskólanemar eignist börn á meðan að námi þeirra stendur. Margskonar ástæður eru fyrir því að háskólanemar ákveða að eignast börn á þeim tíma. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×