Fyrirhugaður auðlindaskattur á laxeldi í Noregi lækkar úr 35 prósentum niður í 25 prósent, samkvæmt samkomulagi sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa náð við tvo smáflokka í því skyni að tryggja meirihlutastuðning við málið í Stórþinginu. Upphafleg tillaga gerði ráð fyrir að skatturinn yrði 40 prósent af hreinum hagnaði.
Fréttir af samkomulaginu fyrir helgi leiddu til þess að verð hlutabréfa í fiskeldisfyrirtækjum rauk upp í norsku kauphöllinni. Þannig hækkaði verðmæti SalMar, stærsta eiganda Arnarlax, um átta prósent, og verðmæti Mowi hækkaði um sex prósent.
Í samkomulagi stjórnarflokkanna, Verkmannaflokksins og Miðflokksins, við smáflokkana Venstre og Pasientfokus, felst einnig að leyfður frádráttur vegna auðlegðarskatts hækkar úr 50 í 75 prósent. Þá verður fiskeldissveitarfélögum og fylkjum tryggðar hærri tekjur úr Fiskeldissjóði. Gert er ráð fyrir að styrkja umhverfisþáttinn og framlög til tækniþróunar í greininni verða aukin, samkvæmt frétt NRK.
Þrátt fyrir samkomulagið er tvísýnt hvort meirihlutastuðningur reynist við það í Stórþinginu. Flokkarnir sem standa að því hafa aðeins eins atkvæðis meirihluta á bak við sig og vitað er að innan beggja stjórnarflokkanna er andstaða úr kjördæmum sem treysta mest á fiskeldi. Helstu andstæðingar skattsins, Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn, telja sig geta fellt málið og boða samkvæmt frétt VG að hver einasti þingmaður flokkanna muni mæta við atkvæðagreiðsluna, í von um að einhverjir stjórnarþingmenn muni einnig greiða atkvæði gegn málinu.
Samband íslenskra sveitarfélaga segir að tryggja þurfi sveitarfélögum sem hafi fiskeldi beina hlutdeild í innheimtum gjöldum. Það þurfi að ná sátt við sveitarfélögin um hvernig skuli skipta þeim tekjum sem innheimtast, svo þau geti staðið fyrir nauðsynlegri innviðauppbyggingu í sínu sveitarfélagi.
Formaður íbúasamtaka Þingeyrar vill leggja gjöld á fiskeldi sem renni til sveitarfélaga á viðkomandi stöðum. Dýrfirðingar horfi auk þess upp á það að eldisfiskurinn þaðan sé fluttur til vinnslu í öðru sveitarfélagi.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.