Neytendur

Vilja fresta því að slökkva á 2G og 3G sendum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Síminn hefur sótt um að fá að slökkva síðar en um áramót á sínum sendum.
Síminn hefur sótt um að fá að slökkva síðar en um áramót á sínum sendum. Vísir/Vilhelm

Síminn hefur sótt um að fresta því að slökkva á 2G og 3G sendum sínum þar til um mitt næsta ár. Tæknistjóri Nova segir Nova nær búið að fasa út sína senda. Unnið hafi verið að því frá ársbyrjun síðasta árs.

Ólafur Magnússon, tæknistjóri Nova, var til viðtals í Reykjavík síðdegis í dag um útfösunina. Hann segir Nova hafa slökkt á 2G-sendum um síðustu áramót og hafi um leið targeterað viðskiptavini sína sem voru með tæki sem aðeins studdu þessi tæki.

Hann segir að útfösun 2G hafi lokið um áramót og eftir það hafi tekið við útfösun á 3G sendum fyrirtækisins. Enn sé unnið að því að slökkva á öllum sendum sem senda á 3G. Hann segir þetta gamla tækni sem noti samt sem áður það tíðniband sem er notað til að dreifa þráðlausri tækni.

Vilja rýma fyrir 5G

„Það er ekki óendanleg auðlind,“ segir hann og að með því að slökkva á 2G og 3G sendum sé búið til meira rými fyrir 5G senda sem hafi tekið við.

„Ef þú ert með átta akreina hraðbraut og þú ert með tvær akreinar sem nota hestvagna þá viltu setja sportbílana á þessar akreinar í staðinn.“

Fjallað var um það í sumar að sérfræðingur hjá Fjarskiptastofu teldi að enn væru þúsundir raftækja á landsvísu sem nýta 2G og 3G-farsímaþjónustu. Sem dæmi nýti öryggisfyrirtæki og sumarbústaðasvæði sér þjónustuna. Ólafur segir Nova hafa verið í sambandi við sína viðskiptavini beint sem eiga tæki eða tól sem nota þessa tækni til að útskýra fyrir þeim áhrifin.

Hann segir þeim fara fækkandi sem nota þessa tækni en þetta geti átt við fleiri tæki en bara síma, í raun um öll tæki sem þurfa að nota Internetið, sumarbústaðahlið, mælar sem senda mælingar og ýmislegt annað. Sé fólk til dæmis með sumarbústaðahlið sem notar 2G eða 3G segir hann fólk verða að hafa samband við þjónustuaðila og fá búnað á hliðið sem styður við nýrri tækni.

6G komi eftir um fimm ár

Ólafur segir útfösun 4G líka hafna, eftir að 5G kom, en þó án þess að notendur finni fyrir því. Hann segir fjölda símtækja sem styðja við 5G komið upp í hátt í 70 prósent og þegar það haldi áfram gerist það smám saman. Hann segir 6G líklega koma um 2030 ofan á núverandi tækni og það stýri því mest hver þörfin er hversu fljótt það komi. Hversu mikinn hraða þarf fyrir samskiptin, til dæmis muni sjálfkeyrandi bílar þurfa að geta átt í mjög hröðum samskiptum við gervihnetti til að bregðast við.

„Við erum ekkert hætt. Þetta er stöðug þróun áfram,“ segir hann.

Hann segir að ráðgert hafi verið að slökkva á öllum 2G og 3G sendum um áramót en að Síminn hafi sótt um að fresta því að slökkva á sínum sendum þar til um mitt næsta ár. Hann segir Símann byrja útfösunina seinna en Nova og verði því síðar á ferðinni en Nova.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×