Handbolti

Segir HSÍ ekki vera með „fulle fem“ ef samningar við Stöð 2 Sport sigla í strand

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hannes Jón Jónsson, þjálfari Alpla Hard í Austurríki, vonar að HSÍ semji aftur við Stöð 2 Sport sem fyrst.
Hannes Jón Jónsson, þjálfari Alpla Hard í Austurríki, vonar að HSÍ semji aftur við Stöð 2 Sport sem fyrst. Vísir/Getty

Hannes Jón Jónsson, þjálfari Alpla Hard í austurrísku úrvalsdeildinni í handbolta, var á línunni í síðasta hlaðvarpsþætti Handkastsins. Hann hefur fylgst vel með úrslitakeppni Olís-deildar karla og segist hafa áhyggjur af því ef HSÍ fer að missa sýningarréttinn eitthvert annað en á Stöð 2 Sport.

„Í vetur er ég búinn að fylgjast bara nokkuð vel með þessu. Frá því í kannski október eða nóvember þegar ég fékk aðgang að þessu og þá fór ég að fylgjast með. Þetta er held ég í fyrsta skipti sem ég get fylgst með íslensku deildinni af einhverju viti síðan ég flutti út fyrir einhverjum 18 árum síðan,“ sagði Hannes.

„Núna í vetur hef ég náð að fylgjast nokkuð vel með og í úrslitakeppninni er þetta búið að vera geggjað. Bara geggjaðir leikir og geggjað sjónvarpsefni og stórt hrós á ykkur sem eruð að blaðra um þetta bæði í hlaðvarpi og sjónvarpinu, bara vel gert.“

Arnar Daði Arnarsson, stjórnandi þáttarins, benti Hannesi þá á að mögulega væri þetta seinasti veturinn í einhvern tíma sem hann gæti fylgst vel með íslensku deildinni í sjónvarpi. Samningar milli HSÍ og Stöðvar 2 hafa verið í lausu lofti og óvíst er hvað verður á næsta tímabili.

„Ég hef náttúrulega heyrt þetta líka og ef að HSÍ er með þetta í hendi sér og lætur það gerast þá eru þeir bara ekki með fulle fem,“ sagði Hannes.

„Ég trúi því ekki að þeir breyti eitthvað út af þessu. Ég held að það hljóti allir að vera ógeðslega ánægðir með umgjörðina og umfjöllunina og að vera eitthvað að hrófla við því núna, alveg sama hvað ástæður liggja þar að baki, væri galið.“

Viðtalið við Hannes og þáttinn í heild sinni má heyra í spilaranum hér fyrir neðan, en Arnar hringir til Austurríkis eftir um 24 mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×