Handbolti

Logi Geirsson tekinn úr sambandi í beinni í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Geirsson var flottur að vanda í setti Seinni bylgjunnar í Mosfellsbænum í gær.
Logi Geirsson var flottur að vanda í setti Seinni bylgjunnar í Mosfellsbænum í gær. Vísir/Hulda Margrét

Logi Geirsson fékk að eiga lokaorðin í Seinni bylgjunni í gær og það er óhætt að segja að það hafi endað öðruvísi en búist var við.

Logi Geirsson var einn af þremur sérfræðingum Seinni bylgjunnar í mögnuðum oddaleik í Mosfellsbænum í gær.

Haukarnir tryggðu sér þar sæti í lokaúrslitunum með 23-17 sigri á heimamönnum í Aftureldingu og fyrsti leikurinn á móti ÍBV í úrslitaeinvíginu verður úti í Vestmannaeyjum á laugardaginn.

Seinni bylgjan fór yfir leikinn í gærkvöldi og í lok þáttar fékk Logi Geirsson síðan tækifæri til að kveðja í stað umsjónarmannsins Stefáns Árna Pálssonar sem gerir það vanalega.

„Heyrðu, ég ætla að enda þessa útsendingu með því að ég ætla að láta þig kveðja. Þú ætlaðir að gera það síðasta en ég ætla að leyfa þér að gera það núna,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar, og benti á Loga Geirsson.

„Allir á Íslandi. Er ég mættur?“ sagði Logi og fullvissaði sig um að myndavélin væri á honum.

„Fylgist með þessu úrslitaeinvígi. Þetta verður eitthvað rosalegt og Haukar eru ekki að fara gefa neitt eftir. Munið þið það,“ sagði Logi Geirsson og ætlaði líklega að bæta kveðju við. Af því varð ekki. 

Skjárinn varð svartur því starfsmaður íþróttahússins hafði hreinlega tekið Loga og alla útsendingu Seinni bylgjunnar úr sambandi. Það má sjá þennan skrautlega endi á Seinni bylgjunni hér fyrir neðan.

Klippa: Logi Geirsson tekinn úr sambandi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×