Umfjöllun og viðtal: Haukar - ÍBV 29-26 | Haukakonur knúðu fram oddaleik í Eyjum

Andri Már Eggertsson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Haukar höfðu betur í framlengingu gegn ÍBV í fjórða leik milli liðanna í undanúrslitum Olís-deildar kvenna. Staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma og grípa þurfti til framlengingar. Haukar skoruðu fyrstu þrjú mörkin og unnu að lokum 29-26.

Haukar tóku frumkvæðið í leiknum og gerðu fyrstu tvö mörkin. Eyjakonur voru hikandi á fyrstu mínútunum og voru að tapa boltanum klaufalega. Gestirnir voru ekki langt á eftir og jöfnuðu leikinn 5-5.

Eins og í síðustu tveimur leikjum milli þessara liða var fyrri hálfleikur afar jafn og spennandi. Haukar voru einu skrefi á undan en forskotið var aldrei meira en tvö mörk í fyrri hálfleik.

Líkt og í síðasta leik milli liðanna á Ásvöllum var Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir að taka mikið af skotum sem voru ekki að rata inn í markið. Hrafnhildur var með eitt mark úr átta skotum í fyrri hálfleik.

Haukar skoruðu síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik 13-11.

Heimakonur gerðu fyrstu markið í síðari hálfleik og komust þremur mörkum yfir. Marta Wawrzynkowska kveikti á sínu liði þegar leið á síðari hálfleik. Marta varði víti og ÍBV datt í gang í kjölfarið. ÍBV jafnaði leikinn 16-16.

Lokamínúturnar í venjulegum leiktíma voru æsispennandi. Sunna Jónsdóttir jafnaði leikinn í 22-22. Haukar fengu mjög langa sókn sem endaði með að Natasja Hammer klikkaði. ÍBV fékk síðustu sóknina og Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, tók leikhlé þegar tuttugu sekúndur voru eftir. Boltinn var dæmdur af Eyjakonum og framlengja þurfti leikinn.

Haukar byrjuðu framlenginguna afar vel og skoruðu fyrstu þrjú mörkin. Elísa Elíasardóttir var sú eina sem skoraði á fyrstu fimm mínútum framlengingarinnar. Haukar voru þremur mörkum yfir þegar haldið var í síðari hálfleik framlengingarinnar.

Heimakonur héldu sínu striki á síðustu fimm mínútunum og fögnuðu þriggja marka sigri 29-26.

Af hverju unnu Haukar?

Haukar hafa núna í síðustu þremur heimaleikjum farið í framlengingu og unnið. Haukar áttu meira eftir á tanknum og skoruðu fyrstu þrjú mörkin í framlengingunni og þá var leikurinn gott sem búinn. 

Hverjar stóðu upp úr?

Elísa Helga Sigurðardóttir kom inn á og stóð sig afar vel í markinu. Elísa Helga varði átta skot og endaði með 53 prósent markvörslu.

Sara Odden spilaði afar vel í bæði vörn og sókn. Sara skoraði sex mörk úr ellefu skotum.

Hvað gekk illa?

ÍBV byrjaði framlenginguna á að grafa sig ofan í holu og fá á sig fyrstu þrjú mörkin. ÍBV fór illa með dauðafæri í framlengingunni sem hefði geta gert leikinn meira spennandi en allt kom fyrir ekki. 

Hvað gerist næst?

Á þriðjudaginn mætast liðin í oddaleik í Vestmannaeyjum klukkan 18:00. 

Sunna: Þær eru alveg jafn þreyttar og við

Sunna í baráttu í leik liðanna fyrr í einvíginu.Vísir/Hulda Margrét

Sunna Jónsdóttir fyrirliði ÍBV var vitaskuld svekkt eftir tapið gegn Haukum í dag.

„Stál í stál allan leikinn og góðar varnir og hádramatískt. Framlengingin var algjörlega þeirra og þannig endaði það,“ en Haukar höfðu töluverða yfirburði í framlengingunni.

Hún sagði þennan leik hafa þróast svipað og fyrri leiki liðanna í einvíginu.

„Sterkar varnir og lítið skorað. Jafnt á öllum tölum og örugglega ótrúlega skemmtilegt fyrir áhorfendur. Það var ótrúlega gaman að fá svona marga áhorfendur frá eyjum og Haukarnir mega eiga það að þær eru að toppa á hárréttum tíma. Þær eru búnar að spila virkilega vel og bæta sig í allan vetur.“

Sunna vildi ekki kenna þreytu um yfirburði Hauka í framlengingunni.

„Besta afsökunin er þreyta en þær eru alveg jafn þreyttar og við. Bæði lið eru að spila á frekar fáum leikmönnum og allt það. Þetta er önnur framlengingin hér á Ásvöllum þar sem við „koxum“ og við þurfum að fara vel yfir það hvernig við getum komið betur inn í framlenginguna.“

Eins og áður segir er oddaleikur framundan á þriðjudag.

„Þetta verður ótrúlega skemmtilegt og þvílík stemmning og frábær stuðningur sem við fáum. Auðvitað ætluðum við að klára þetta hér og fá lengri tíma en við mætum fullstemmdar á þriðjudaginn,“ sagði Sunna að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira