Umfjöllun, viðtöl og myndir: Afturelding- Haukar 28-24 | Aftur­elding komið yfir í ein­víginu gegn Haukum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Birkir Benediktsson átti flottan leik í kvöld.
Birkir Benediktsson átti flottan leik í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Aftur­elding vann í kvöld fyrsta leikinn í undan­úr­slita­ein­vígi liðsins gegn Haukum í Olís deild karla. Leikið var í Mos­fells­bænum í kvöld fyrir framan troð­fulla höll, loka­tölur 28-24 Aftur­eldingu í vil.

Liðin buðu upp á mikinn hraða í upphafi leiks og áhorfendur fengu að sjá nóg af mörkum á upphafsmínútunum.

Vísir/Hulda Margrét

Eftir að gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins tóku heimamenn í Aftureldingu forystuna og virtust vera með ágætis tök á leiknum. Haukar voru þó með stórar skyttur heimamanna í hálfgerðri gjörgæslu og áttu þeir Þorsteinn Leó Gunnarsson og Birkir Benediktsson í stökustu vandræðum með að koma skotum á markið.

Vísir/Hulda Margrét

Eftir því sem leið á hálfleikinn varð sóknarleikur Aftureldingar erfiðari og Haukarnir gengu á lagið. Gestirnir náðu forystunni í stöðunni 7-8 þegar fyrri hálfleikur var rétt tæplega hálfnaður og þeir héldu heimamönnum í skefjum fram að hálfleikshléi.

Mest náðu Haukar fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik í stöðunni 9-13, en heimamenn skoruðu síðasta markið fyrir hlé og staðan var því 10-13 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Vísir/Hulda Margrét

Það var nokkuð augljóst að hálfleiksræða Gunnars Magnússonar virkaði vel á Aftureldingarliðið því heimamenn mættu dýrvitlausir til leiks í síðari hálfleik. Birkir Benediktsson fór fyrir sóknarleik Aftureldingar á upphafsmínútum hálfleiksins, en það var hins vegar varnarleikurinn sem gerði heimamönnum auðvelt fyrir á stórum köflum.

Vísir/Hulda Margrét

Afturelding þvingaði Haukana í erfiðar sóknaraðgerðir sem urðu til þess að gestirnir töpuðu boltanum ítrekað og heimamenn fengu að launum auðveld mörk úr hraðaupphlaupum. Þegar um tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik tóku heimamenn öll völd, skoruðu sjö mörk í röð og breyttu stöðunni úr 14-17 í 21-17.

Vísir/Hulda Margrét

Á þeim kafla tók Ásgeir Örn Hallgrímsson tvö leikhlé fyrir gestina, en náði ekki að stöðva blæðinguna og stríðið var í raun tapað.

Afturelding kláraði leikinn fagmannlega og vann að lokum fjögurra marka sigur, 28-24, og Mosfellingar eru því komnir með forystu í þessu undanúrslitaeinvígi.

Af hverju vann Afturelding?

Eins og áður segir mættu heimamenn dýrvitlausir til leiks í síðari hálfleik og brutu Haukana niður nokkuð hratt og örugglega. Þegar eitt lið skorar sjö mörk í röð á tíu mínútna kafla í einum handboltaleik á það lið líklega skilið að vinna.

Vísir/Hulda Margrét

Hverjir stóðu upp úr?

Birkir Benediktsson fór fyrir liði Aftureldingar sóknarlega þegar liðið var að hefja endurkomuna. Hann skoraði fyrstu þrjú mörk liðsins í síðari hálfleik og gengur frá verkefninu með sjö mörk úr níu skotum. Þá var Ihor Kopyshynskyi einnig í stóruhlutverki í síðari hálfleik og skoraði úr hverju hraðaupphlaupinu á fætur öðru og innkoma Jovan Kukobat í mark heimamann skemmdi heldur ekki fyrir. 

Í liði Hauka var Guðmundur Bragi Ástþórsson atkvæðamestur með tíu mörk.

Hvað gekk illa?

Heimamönnum gekk bölvanlega í uppstilltum sóknarleik í fyrri hálfleik og gestirnir frá Hafnarfirði virtust hafa svör við flestu sem þeir reyndu. Í síðari hálfleik snérist dæmið heldur betur við og vörn Aftureldingar hélt heldur betur aftur að gestunum.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast á nýjan leik að Ásvöllum næstkomandi mánudag klukkan 19:30.

Gunnar: Hann er vélmenni

Gunnar Magnússon var eðlilega sáttur eftir leik.Vísir/Hulda Margrét

„Það er bara gott að vinna, en hálfleikarnir voru eins og svart og hvítt og við bara mættum ekki að mínu mati í fyrri hálfleikinn,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar að leik loknum.

„Ég sagði við strákana í hálfleik að við værum ekki dauðir og að við gætum alveg snúið þessu og unnið þetta, að við gætum ekki verið mikið verri en þetta. Ég var afar óánægður með hvernig við mættum í fyrri hálfleik. En sem betur fer vorum við á lífi og vorum heppnir að vera bara þremur mörkum undir í hálfleik og þar af leiðandi áttum við breik í seinni hálfleikinn. Svo komum við til baka með frábæran seinni hálfleik og fyrst og fremst varnarleikurinn sem var mjög öflugur og Jovan [Kukobat] þar fyrir aftan. Svo var sóknarleikurinn agaður og við seigluðums áfram.“°

Stóru skytturnar í Aftureldingu, þeir Þorsteinn Leó Gunnarsson og Birkir Benediktsson, voru í strangri gæslu í fyrri hálfleik og sóknarleikur heimamanna gekk oft á tíðum illa sökum þess. Gunnar segir að sínir menn hafi náð að sná taflinu við í síðari hálfleik.

„Þú bara horfir á varnarleikinn okkar í fyrri hálfleik og þá bara erum við ekki á staðnum. Þeir gerðu það sem þeir vildu. Jovan ver einhver dauðafæri til að halda okkur í leiknum, en sama hvað við vorum að gera í vörninni í fyrri hálfleik þá var það ekki til útflutnings.“ 

„En svo spiluðum við seinni hálfleikinn bara eins og við höfum verið að spila núna síðustu leiki. Það var alvöru barátta og flottur varnarleikur. Sóknarleikurinn bara agaður og góður. En mig langar kannski að segja það líka að þegar við vorum að ströggla svona mikið í fyrri hálfleik þá sýndum við þrautsegju að hanga inni í leiknum. Það er ákveðin kúnst líka að vera með í raun og veru allt niður um sig hanga inni í leiknum. Ég er bara hrikalega ánægður með að snúa þessu við og hvernig strákarnir komu og svöruðu fyrir sig í seinni hálfleik. Hann var frábær.“

Eins og Gunnar nefnir átti Jovan Kukobat einnig sinn þátt í endurkomu Aftureldingar. Markvörðurinn hélt liðinu á floti í fyrri hálfleik og varði nokkra mikilvæga bolta úr dauðafærum.

„Jovan var frábær og varði mikilvæga bolta. Svo kom hann auðvitað líka með vörninni í seinni. Svo auðvitað stigu menn upp í seinni hálfleik. Þorsteinn [Leó Gunnarsson] var auðvitað í ströggli og ég tek það bara algjörlega á mig. Það var vitað að það þyrfti að taka einn svona hauskúpuleik til að núlla sig af og nú er það bara búið og hann kemur klár í næsta leik. Við eigum hann inni. Eins og ég segi þá er ég bara ánægður með að hanga inni í þessu og klára þetta. Það var karakter að ná hérna sigri.“

Að lokum var Gunnar spurður út í Blæ Hinriksson, sem flestir gerðu ráð fyrir að yrði ekki með í kvöld vegna ökklameiðsla. Blær var hins vegar á skýrslu og fyrir leik sagði Gunnar að hann ætlaði að sjá til hvort hann fengi nokkrar mínútur í kvöld.

Það fór hins vegar svo að Blær lék nánast allan leikinn og virðist vera búinn að ná sér af erfiðum meiðslum á mettíma.

„Hann er ekki mennskur,“ sagði Gunnar léttur.

Vélmennið Blær Hinriksson.Vísir/Hulda Margrét

„Við sáum myndir af þessu og hvað eru margir dagar síðan hann fór með sjúkrabíl? Maður er orðinn svo ruglaður í þessum tíma, en það geta ekki verið mjög margir dagar. Ég var ekkert viss um hvort hann myndi duga í fimm mínútur eða hvað og ég veit ekkert hvernig hann vaknar á morgun en þetta er vélmenni. Ég sagði það líka fyrir leik að ef einhver getur það þá er það hann og hann er algjört vélmenni. Ég veit hreinlega ekki hvað hann er búinn að vera að gera síðustu tvær vikur en það er allavega eitthvað. Hann er búinn að vera 22 tíma sólahringsins í einhverri sjúkraþjálfun. Hann er vélmenni, en við skulum vona að það verði í lagi með hann á morgun því þetta einvígi er rétt að byrja. Það er bara 1-0 og þetta verður alvöru einvígi,“ sagði Gunnar Magnússon að lokum.

Guðmundur: Við gjörsamlega hentum þessu frá okkur

Guðmundur Bragi Ástþórsson í leik kvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta er mjög súrt og eins og þú segir mjög kaflaskiptur leikur. Við áttum mjög fínan fyrri hálfleik og vorum stabílir. Baráttan góð og vörnin góð, en svo brotnum við bara í seinni hálfleik. Erum að missa boltann í sókninni og þetta er mjög mikið upp og niður hjá okkur í seinni hálfleik,“ sagði Guðmundur Bragi Ástþórsson, leikmaður Hauka, að leik loknum.

Eins og Guðmundur nefnir töpuðu Haukarnir mikið af boltum í seinni hálfleik og hann segir að þeir hafi verið sjálfum sér verstir.

„Við erum bara sjálfum okkur verstir. Ég held að það sé algjörlega þannig. Ég veit ekki hvað kom yfir og við reyndum að stoppa þetta með tveimur leikhléum en það gekk ekki. Allt í einu var þetta bara komið í þrjú mörk frá því að við vorum einu yfir eða eitthvað. Þetta var bara mjög fljótt að gerast og það er mjög mikið okkur að kenna þar sem við erum bara sjálfum okkur verstir að kasta boltanum frá okkur í lélegum árásum.“

Á tímabili í seinni hálfleik skoruðu heimamenn í Aftureldingu sjö mörk í röð og það er þar sem Guðmundur segir að leikurinn hafi tapast.

„Leikurinn byggðist bara á þessum kafla myndi ég segja. Þetta hefði verið allt öðruvísi hefðum við bara haldið haus í þennan stutta tíma. Við gjörsamlega hentum þessu frá okkur.“

Hann segir þó að liðið muni byggja á góðum fyrri hálfleik í kvöld fyrir næsta leik liðanna sem fram fer á mánudaginn.

„Fyrri hálfleikurinn var flottur og við héldum þeim í tíu mörkum. Við skoruðum reyndar bara þrettán þannig það var margt sem mátti bæta. En yfir höfuð var þetta mjög fínn fyrri hálfleikur og ef við hefðum spilað þannig heilt yfir í seinni hálfleik þá hefði þetta verið allt öðruvísi leikur,“ sagði Guðmundar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira