Handbolti

Gísli Þorgeir öflugur þegar Magdeburg burstaði lærisveina Ólafs

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir og félagar eiga í harðri baráttu um þýska meistaratitilinn en liðið varð meistari á síðustu leiktíð.
Gísli Þorgeir og félagar eiga í harðri baráttu um þýska meistaratitilinn en liðið varð meistari á síðustu leiktíð. Vísir/Getty

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Magdeburg sem vann stórsigur á lærisveinum Ólafs Stefánssonar í Erlangen. Þá tapaði Íslendingaliðið Gummersbach naumlega gegn Hannover-Burgdorf.

Magdeburg er í harðri baráttu um þýska meistaratitilinn og þurfti nauðsynlega á tveimur stigum að halda í þeirri baráttu. Lið Erlangen er hins vegar um miðja deild og hefur að litlu að keppa.

Enda kom það í ljós fljótt hvort liðið var tilbúnara í slaginn. Magdeburg náði fljótlega góðri forystu og leiddi 18-10 í hálfleik. Þeir unnu að lokum fimmtán marka sigur, lokatölur 38-23. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Magdeburg og gaf fimm stoðsendingar. Liðið er nú jafnt Kiel að stigum sem á leik til góða en Kiel vann 31-27 útisigur á Rhein Neckar Löwen í kvöld.

Ýmir Örn Gíslason var í liði Löwen og spilaði í vörninni en komst ekki á blað. 

Íslendingaliðið Gummersbach mátti sætta sig við eins marks tap þegar liðið heimsótti Hannover-Burgdorf. Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk úr sjö skotum fyrir gestina og Hákon Daði Styrmisson eitt í 28-27 sigri Hannover-Burgdorf. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem situr í 6. sæti úrvalsdeildarinnar eftir sigurinn.

Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, er í ellefta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×