Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Haukar 20-19 | ÍBV komið í 2-1 eftir dramatískan sigur

Einar Kristinn Kárason skrifar
ÍBV tekur á móti Haukum í kvöld.
ÍBV tekur á móti Haukum í kvöld. vísir/Hulda Margrét

Deildarmeistarar ÍBV eru komnir í 2-1 forystu í undanúrslitaeinvíginu gegn Haukum í Olís-deild kvenna eftir eins marks sigur í Eyjum í kvöld. Sigurmark ÍBV kom á lokaandartökum leiksins.

Eftir sannfærandi sigur ÍBV í fyrsta leik liðanna í Vestmannaeyjum vann lið Hauka í hádramatískum leik á Ásvöllum í framlengdum leik í öðrum leik liðanna. Leikur kvöldsins því allt annað en formsatriði fyrir heimastúlkur sem hafa leikið á als oddi í vetur.

ÍBV hóf leikinn betur og skoruðu fimm mörk í röð eftir að hafa lent marki undir á upphafsmínútunum Staðan 6-2 eftir rúmlega tíu mínútur áður en Haukar skoruðu loks á ný. Eyjastúlkur náðu fjögurra marka forustu á ný í næstu sókn en tók þá við markaþurrð sem varði í rúmar fimm mínútur, þar sem gestirnir minnkuðu muninn í tvö mörk.

Hafnfirðingar voru aldrei langt undan í fyrri hálfleiknum og skoruðu lokamark hálfleiksins þegar þær minnkuðu muninn í 10-8 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Margar góðar sóknir, fín færi og vítaköst fóru í súginn á fyrstu þrjátíu mínútum leiksins.

ÍBV því tveimur mörkum yfir þegar gengið var til búningsherbergja og allt stefndi í spennandi síðari hálfleik. Haukar skoruðu fyrsta markið en við tóku heimastúlkur og náðu þær fjögurra marka forskoti á ný um miðbik hálfleiksins, 16-12. ÍBV í kjörstöðu fyrir lokakafla leiksins en úrslitakeppnin er óútreiknanleg og Haukar komu á fljúgandi siglingu aftur inn í leikinn og jöfnuðu án þess að heimaliðið skoraði mark. Ekki nóg með það gerðu þær gott betur og komust yfir, 16-17 þegar skammt eftir lifði leiks.

Lokakafli leiksins var til fyrirmyndar fyrir íþróttina hvað skemmtanagildi varðar en liðin komu boltanum í markið til skiptis og áfram leiddu Hafnfirðingar þar til á lokamínútunni. Í stöðunni 19-19 fengu gestirnir vítakast og voru auk þess manni fleiri. Elín Klara Þorkelsdóttir, sem hefur verið frábær í þessu einvígi, tók vítið en Marta Wawrzynkowska gerði sér lítið fyrir og varði. ÍBV átti lokasókn þar sem Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir braust gegnum vörn Hauka og kom boltanum í netið þegar tvær sekúndur voru eftir.

Þetta reyndist það allra síðasta sem gerðist í hreint út sagt frábærum leik, og lauk honum því með eins marks sigri ÍBV, 20-19 og staðan 2-1 í einvíginu.

Af hverju vann ÍBV?

Það er erfitt að segja. Bæði lið hefðu auðveldlega getað fagnað sigri í kvöld en það eru litlu hlutirnir, til dæmis misnotuð færi og vondar ákvarðanatökur, sem skildu á milli í kvöld. Vítakast sem fer forgörðum, verður til þess að ÍBV stelur sigrinum með síðasta skoti leiksins.

Hverjar stóðu upp úr?

Elín Klara og Hrafnhildur Hanna fóru fyrir sínum liðum í kvöld hvað varðar markaskorun með sex og sjö mörk. Elísa Elíasdóttir og Berglind Benediktsdóttir voru öflugar varnarlega en Elísa skoraði einnig þrjú mörk af línunni. Marta Wawrzynkowska átti fínan dag í marki ÍBV með fimmtán bolta varða á meðan Margrét Einarsdóttir varði ellefu.

Hvað gekk illa?

Bæði lið köstuðu frá sér forskoti í þessum leik og var mikið um sveiflur. Undir lokin virtust gestirnir líklegri en ótrúlegur lokakafli sannaði að það er ekkert gefið í boltanum. Bæði lið klikkuðu á úrvalsfærum og gerðust sek um tapaða bolta og illa útfærðar sóknir og virkuðu leikmenn beggja liða þreyttir, sér í lagi þegar líða tók á.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast í fjórða leik á laugardaginn næstkomandi þar sem Eyjastúlkur geta komið sér í úrslitaleikinn en Haukar tryggt sér oddaleik.

Sigurður: Uppsetningin á úrslitakeppninni heimskuleg og léleg

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var svekktur með eins marks tapVísir/Hulda Margrét

„Varst þú ekki bara með rétta orðið. Vá,” sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, að lokinni rússíbanareið. ,,Þetta var eins og við töluðum um fyrir leik. Ég held að við öll höfum búist við þessu. Þetta er hörku einvígi. Ég er rosalega pirraður yfir síðustu tíu mínútum.“

Síðustu tíu mínúturnar voru ekki það eina sem Sigurður var ósáttur með.

„Ég ætla að fá að losa aðeins og segja að þetta er galið. Það er galið að vera í úrslitakeppni og þið blaðamenn og fréttamenn og allir þeir sem pæla í þessu geta skoðað þetta. Við skoðum körfuna, handboltann, NBA og allt. Þú sérð þetta hvergi. Þriðji leikurinn á innan við fimm dögum. Þetta er galið. Þær eru allar sprungnar og við erum að vinna með kvenfólk þar sem slysatíðni er töluvert meiri en hjá strákum. Það er engin hvíld þannig að uppsetningin á þessari úrslitakeppni er heimskuleg og léleg.“

„Það er engin pæling í því hvernig meiðslahætta sé heldur bara keyra þetta í gegn. Við erum búin að spila mót í einhverja átta, níu mánuði og svo á að klára einhverja úrslitakeppni á fimm dögum. Þetta er bara vitlaust og hættulegt. Ég ætla að gefa mínum stelpum það að þær voru sprungnar,” sagði Sigurður og glotti.

„Þær sýndu frábæran karakter og hjá Haukastelpunum sömuleiðis. Þær gefast ekki upp á útivelli í Eyjum. Virðingu á þær. Ég var ánægður með síðustu þrjátíu sekúndurnar. Úrslitakeppni býður upp á mistök og það er spenna, en að setja íþróttamenn í hættu er galið.“

„Þetta var upp og niður. Við spiluðum illa síðustu tíu, fimmtán en þá er tankurinn svolítið búinn. Haukarnir eru klókar og kannski sprækari en frábært að ná að vinna og komast yfir. Það hefði verið ömurlegt að fara á útivöll undir. Nú er það bara recovery. Við fáum tvo daga og við gerum allt til að klára þetta á laugardaginn.“

„Það er ekkert hægt að vera á æfingum. Þetta er hundleiðinlegt fyrir íþróttamenn að vera í svona úrslitakeppni en fyrir áhorfendur er þetta mjög skemmtilegt, og auðvitað er þetta það,” sagði Sigurður Bragason hásri röddu.

Díana: Ætla að koma aftur hingað á þriðjudaginn

Díana Guðjónsdóttir stefnir á Eyjaferð á þriðjudag.Vísir/Hulda Margrét

Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka, var langt í frá af baki dottin eftir tapið í Vestmannaeyjum. ,,Svona er bara boltinn. Við fórum illa með allt of mörg færi í þessum leik og þar liggur munurinn fannst mér.”

,,Eitt víti, til eða frá, í þessu. Það fóru alltof mörg færi allan leikinn og það er það sem skilar ÍBV sigri. Þreyttir fætur þreytt höfuð, bæði lið eru þannig. Það er bara áfram gakk og ég ætla að koma hingað aftur á þriðjudaginn,” en þar vísar Díana til leiks sem yrði oddaleikur liðanna í undanúrslitunum.

,,Auðvitað er þetta mjög sérstakt,” sagði Díana varðandi skipulag úrslitakeppninnar. ,,Umspilið um sæti í Olís deildinni. Þar er allt í einu fjögurra daga pása. HSÍ setur þetta svona upp og ég nenni ekki að spá í því. Ég mæti í þá leiki sem ég á að mæta í og fer í hvern einasta leik til að vinna.”

,,Við erum í úrslitakeppni til að vinna hvern einasta leik og það hefur ekkert breyst þó við höfum tapað með einu marki í dag,” sagði Díana kokhraust.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira