Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan – Valur 24-25 | Vals­konur jöfnuðu metin í gríðarlega spennandi leik

Hjörvar Ólafsson skrifar
Thea Imani og samherjar hennar hjá Val höfðu betur í viðureign sinn við Helenu Rut og liðsfélaga hennar hjá Stjörnunni í kvöld. 
Thea Imani og samherjar hennar hjá Val höfðu betur í viðureign sinn við Helenu Rut og liðsfélaga hennar hjá Stjörnunni í kvöld.  Vísir/Pawel

Valskonur jöfnuðu metin í einvígi sínu gegn Stjörnunni í undanúrslitum Olís deildar kvenna í handbolta með 25-24 sigri í öðrum leik liðanna í Mýrinni í Garðabænum í kvöld.

Jafnt var á öllum tölum framan af fyrri hálfleiknum en undir lok fyrri hálfleiks náði Valsliðið góðum spretti og leiddi með tveimur mörkum 13-15 í hálfleik. 

Áfram hélt spennan í þeim síðari en Valur var skrefinu á undan og náði mest fjögurra marka forystu, 18-22, um miðbik seinni hálfleiksins. 

Stjörnukonur sýndu hins vegar mikinn karakter og jöfnuðu, 24-24, en það var svo Ásdís Þóra Ágústsdóttir sem skoraði sigurmark gestanna þegar skammt var eftir. Ásdís Þóra skoraði þá í autt markið eftir að Stjarnan tapaði boltanum. 

Hrannar Guðmundsson fer yfir málin með leikmönnum sínum. Vísir/Pawel

Hrannar: Gerðum of marga tæknifeila í þessum leik

 „Þetta var hörkuleikur eins og í fyrsta leiknum og nú endaði þetta Valsmegin. Við gerðum allt of marga tæknifeila, þá sérstaklega í fyrri hálfleik og það varð okkur að falli," sagði Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar að leik loknum. 

„Það var líka svekkjandi að ná ekki betri skotum á markið í lokasóknum okkar og missa boltann svona klaufalega í síðustu sóknunum. Svona er þetta og nú er það bara að safna orku fyrir næsta bardaga," sagði Hrannar enn fremur. 

„Það er ýmislegt sem við getum lagað en ég er fyrst og fremst stoltur af liðinu mínu og sáttur heilt yfir við frammistöðuna gegn frábæru Valslliði," sagði Hrannar um framhaldið. 

Ágúst Þór: Fyrst og fremst frábær handboltaleikur

„Þetta var frábær handboltaleikur að mínu mati þar sem tvö góð lið leiddu saman hesta sína. Við vorum komnar í góða stöðu og fórum illa að ráði okkar. Sem betur fer náðum við að sigla sigrinum í land og jafna metin," sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals. 

„Mér finnst við aftur á móti eiga þó nokkuð inni og geta skilað betri spilamennsku. Það sama á líklega við um Stjörnuliðið. Þetta verða jafnir og spennandi leikir þar sem lítið mun bera á milli," sagði hann þar að auki. 

Ágúst Þór lét í sér heyra undir lok leiksins en hann var ekki alveg nógu sáttur við ákvarðanir dómaraparsins á lokamínútu leiksins: „Sko mér fannst dómararnir dæma leikinn mjög vel í 59 mínútur en ég skil ekki hvernig þeir flautu ekki fót þarna undir lokin. Ég var aðeins að fara yfir það," sagði þjálfari Valsliðsins. 

Ágúst Þór Jóhannsson gekk sáttur frá borði. Vísir/Pawel

Af hverju vann Valur?

Valur gerði færri tæknifeila undir lok leiksins og kláraði sínar sóknir betur. Þá náði Valsliðið upp hörku vörn undir lokin og tókst að þvinga leikmenn Stjörnunnar í erfiðar aðgeðrir og óþægileg skot. 

Hverjar sköruðu fram úr?

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst hjá Val með sex mörk þar af tvö úr vítum og Mariam Eradze kom næst með fimm mörk. Hjá Stjörnuliðinu var Helena Rut Örvarsdóttir atkvæðamest með sjö mörk og Britney Cots og Elísabet Gunnarsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor. 

Hvað gekk illa?

Stjarnan missti boltann á ögurstundu sem varð til þess að Valur skoraði markið sem skildi liðin að í autt markið. Þá hefði Britny Cots getað sýnt meiri skynsemi á báðum endum vallarins þegar mest á reyndi. 

Hvað gerist næst?

Liðin mætast í næstu rimmu sinni í einvíginu í Origo-höllinni að Hlíðarenda á miðvikudaginn kemur. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira