Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 72-50 | Valur vann og Haukar komnir með bakið upp að vegg

Hjörvar Ólafsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir og liðsfélagar hennar hjá Val eru komnar í kjörstöðu. 
Hildur Björg Kjartansdóttir og liðsfélagar hennar hjá Val eru komnar í kjörstöðu.  Vísir/Diego

Valskonur komust í 2-0 í einvígi sínu við Hauka í undanúrslitum Subway-deildar kvenna í körfubolta með sannfærandi 72-50 sigri í leik liðanna í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

Heimakonur náðu frumkvæðinu strax í upphafi leiksins en varnarleikur Valsliðsins var til fyrirmyndar allt frá upphafi til enda. 

Munurinn var í kringum 10 stig allan leikinn og Haukar náðu ekki að hleypa spennu í leikinn þrátt fyrir nokkur skammvinn áhlaup. 

Kiana Johnson, leikstjórnandi Vals, var stigahæst á vellinum með 22 stig en hún gaf þar að auki níu stoðsendingar. Hildur Björg Kjartansdóttir kom skammt á eftir með sín 18 stig en auk þess reif Hildur Björg niður 15 fráköst. 

Keira Breeanne Robinson skoraði mest fyrir Hauka eða 16 stig talsins en Tinna Guðrún Alexandersdóttir fylgdi fast á hæla hennar með 14 stig. Robinson tók einnig 12 fráköst.

 

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var sáttur við varnarleik lærimeyja sinna.Vísir/Vilhelm

Ólafur Jónas: Liðsvörnin lagði grunninn að sigrinum

„Við náðum að framkvæma betur það sem vantaði upp á í fyrsta leik liðanna og varnarleikur liðsins var frábær allar 40 mínúturnar. Það var að mínu mati liðsvörnin sem skóp þennan sigur. Við vorum að hjálpa á réttum stöðum og réttum tímapunktum," sagði Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals. 

„Við hleyptum þeim aldrei nálægt og misstum ekki fókus. Sóknarleikurinn gekk smurt og við fengum gott framlag frá mörgum leikmönnum. Við fórum vel yfir fyrsta leikinn og löguðum það sem við náðum ekki að gera alveg nógu vel þar," sagði Ólafur Jónas enn fremur. 

„Liðið fór ekki á flug eftir sigurinn í fyrsta leiknum og ég hef enga trú á því að við munum gera það þrátt fyrir að vera 2-0 yfir. Næsti leikur verður mjög erfiður. Haukar eru með frábært lið og klóka þjálfara sem munu sjá til þess að þær mæti öflugar til leiks í næstu viðureign," segir hann um framhaldið. 

Bjarni Magnússon: Áhyggjuefni hvað við mættum flatar til leiks

„Það er alveg ótrúlegt og í raun óboðlegt hvað liðið mætti flatt til leiks í ljósi á hvaða tímapunkti við erum á tímabilinu. Ég verð að taka það á mig þar sem það er augljóst að við Ingvar undirbjuggum liðið ekki nógu vel fyrir þennan bardaga. Þjálfarateymið sem og og leikmenn þurfa nú að líta í eigin barm," sagði Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka. 

„Við náðum aðeins að klóra í bakkann en aldrei almennilegum áhlaupum til þess að ógna sigri þeirra. Sóknarleikurinn var mjög stirður og boltaflæðið ekki nógu mikið. Leikmenn liðsins voru hver í sínu horni að reyna að grafa okkur upp úr holunni og það kann aldrei góðri lukku að stýra," sagði Bjarni aðspurður um hvað hann væri ósáttastur við í spilamennku Haukaliðsins. 

„Mér fannst ekki nógu mikil stemming í okkar herbúðum okkar og leikmenn fara fljótt í það að tuða yfir því sem var að ganga illa inni á vellinum. Nú þurfum við að vinna vel í því að finna lausnir fram að leiknum á sunnudaginn og snúa bökum saman í þeim leik. Frammistaðan þarf að batna töluvert ef við ætlum að halda okkur á lífi í einvíginu," sagði þjálfarinn margreyndi. 

Bjarni Magnússon var svekktur í leikslok. Vísir/Snædís Bára

Af hverju vann Valur?

Vörn Vals var feykilega sterk frá upphafsmínútunni fram að lokaflautinu. Valsliðið hélt Haukum í 50 stigum sem er uppskrift að góðum árangri. Þá var vopnabúr Vals fjölbreytt á sóknarhelmingnum og leikmenn liðsins geisluðu af sjálfstrausti í aðgerðum sínum. 

Hverjar sköruðu fram úr?

Hildur Björg var einkar góð á báðum endum vallarins en hún lagði í púkkinn allt í senn í stigaskorun, varnareik og frákastabaráttunni. Það voru svo fastir liðir eins og vanalega hjá Kiönu Johnson. 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Hauka einkenndist af ægilega miklu drippli inn í mikla umferð og hnoði. Haukar þurftu að hafa mikið fyrir hverri körfu og tapaðir boltar voru ansi margir. Leikmenn voru fljótir að pirra sig þegar hlutirnir gengu ekki upp og tilraunir til þess að ná upp liðsanga gengu ekki upp. 

Hvað gerist næst?

Liðin leiða saman hesta sína í Ólafssal að Ásvöllum Valur getur þar tryggt sér farseðilinn í úrslitarimmuna með sigri en Haukar strengja líflínu með því að fara með sigur af hólmi. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira