Handbolti

Kiel á toppinn eftir sigur á Íslendingaliðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hákon Daði skoraði eitt mark fyrir Gummersbach gegn Kiel í dag.
Hákon Daði skoraði eitt mark fyrir Gummersbach gegn Kiel í dag. Vísir/Getty

Stórlið Kiel er komið á topp þýsku úrvalsdeildinnar í handknattleik eftir sigur á lærisveinum Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach í dag.

Kiel var fyrir leikinn í dag einu stigi á eftir Fusche Berlin og gat náð toppsætinu eftir að Magdeburg, sem var jafnt Kiel að stigum fyrir leikinn, mistókst að tylla sér á toppinn eftir jafntefli við Melsungen fyrr í dag.

Heimalið Gummersbach byrjaði mun betur í dag og komst í 8-3 eftir að fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Þá kom hins vegar frábær kafli hjá Kiel sem skoraði átta mörk í röð og breytti stöðunni í 11-8.

Staðan í hálfleik var 12-10 fyrir Kiel eftir að heimamenn náðu að minnka muninn alveg undir lok hálfleiksins.

Síðari hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt og sá fyrri. Heimamenn byrjuðu betur og jöfnuðu í stöðunni 13-13 en Kiel náði frumkvæðinu á ný. Gestirnir náðu fjögurra marka forskoti í stöðunni 23-19 og þann mun náði Gummersbach ekki að brúa.

Kiel vann að lokum 30-26 og er því komið á topp deildarinnar. Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach en hann þurfti að yfirgefa völlinn um miðjan síðari hálfleik eftir að hafa fengið sína þriðju tveggja mínútna brottvísun. Þá skoraði Hákon Daði Styrmisson eitt mark fyrir heimamenn.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði eitt mark fyrir Bergischer sem tapaði stórt fyrir Valsbönunum í Göppingen á útivelli í dag. Lokatölur 37-28 en Bergischer er með tuttugu og fjögur stig i áttunda sæti deildarinnar en Göppingen með nítján stig nokkrum sætum neðar.

Þá töpuðu lærisveinar Rúnars Sigtryggssonar í Leipzig á heimavelli gegn Hannover-Burgdorf. Viggó Kristjánsson var fjarri góðu gamni hjá Leipzig en hann mun ekki leika meira á tímabilinu vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×