Formúla 1

Verstappen á ráspól en sigurvegari síðustu keppni ræsir aftastur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Max Verstappen verður á ráspól í Ástralíu.
Max Verstappen verður á ráspól í Ástralíu. Peter Fox/Getty Images

Tvöfaldi heimsmeistarinn Max Verstappen verður á ráspól þegar farið verður af stað í ástralska kappakstrinum í Formúlu 1 á morgun, en liðsfélagi hans hjá Red Bull, Sergio Perez, ræsir hins vegar aftastur.

Verstappen kom, sá og sigraði í tímatökunum fyrir ástralska kappaksturinn í morgun og hans besti hringur var rúmlega 0,2 sekúndum hraðari en besti hringur George Russell sem verður annar í rásröðinni á morgun.

Liðsfélagi Verstappen, Sergio Perez, lenti hins vegar í vandræðum með bíl sinn í fyrsta hluta tímatökunnar og endaði utan brautar. Hann kom sér ekki af stað aftur og verður því aftastur í rásröðinni á morgun. Perez fagnaði sínum fimmta sigri á ferlinum í Formúlu 1 í síðustu keppni þegar hann kom fyrstur í mark í Sádí Arabíu, en nú er ansi ólíklegt að hann nái að fylgja þeim sigri eftir.

Þá verður áhugavert að fylgjast með slagnum milli gömlu erkifjendanna Lewis Hamilton á Mercedes og Fernando Alonso á Aston Martin, en þeir félagar ræsa hlið við hlið á morgun. Hamilton ræsir þriðji og Alonso fjórði.

Ferrari-mennirnir Carlos Sainz og Charles Leclerc virðast einnig vera að stimpla sig snemma út úr toppbaráttunni því Sainz ræsir fimmti og Leclerc sjöundi. Lance Stroll, liðsfélagi Alonso hjá Aston Martin, skilur Ferrari-mennina að í sjötta sæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×