Handbolti

Fékk batakveðjur frá Arnari nokkrum dögum áður en hann hvarf

Sindri Sverrisson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson segist hafa lært margt af þjálfaranum Arnari Gunnarssyni.
Kristján Örn Kristjánsson segist hafa lært margt af þjálfaranum Arnari Gunnarssyni.

Kristján Örn Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, hefur hugsað mikið til síns gamla þjálfara Arnars Gunnarssonar undanfarið eftir að Arnar hvarf.

Mánuður er liðinn síðan að lögregla lýsti eftir Arnari. Samverustund var haldin í Digraneskirkju fyrir tíu dögum þar sem aðstandendur komu saman til að senda honum hlýja strauma, en enn hefur ekkert til hans spurst.

Kristján lék undir stjórn Arnars í fimm ár hjá Fjölni í upphafi síns ferils og segir það enn hjálpa sér í handboltanum í dag, sem leikmanni PAUC í Frakklandi og íslenska landsliðsins. Þegar Kristján greindi frá andlegum veikindum sínum í viðtali við Vísi í febrúar hafði Arnar samband við sinn gamla lærisvein.

„Vildi að ég væri meira eins og hann hvað þetta varðar“

„Hann var einmitt einn af þeim sem að sendu mér skilaboð og óskaði mér góðs bata, nokkrum dögum áður en hann hvarf, sem að ég met sérstaklega mikils núna og auðvitað þá líka,“ segir Kristján sem ræddi ítarlega við Vísi í viðtali í síðustu viku.

„Hann kenndi mér margt sem að ég geri enn þann dag í dag í mínum handboltaleik. Það hefur verið skrifað nokkuð um hann undanfarið og meðal annars það að hann tók aldrei neinu „búllsjitti“. Það getur verið kostur og það getur verið galli, en ég tel að það sé frekar kostur. Ég vildi að ég væri meira eins og hann hvað þetta varðar, að hlusta ekki of mikið á hálfvita,“ segir Kristján og heldur áfram:

„Hann var ótrúlegur handboltagaur, elskaði handbolta og allt sem tengdist honum, og sá vel um sína leikmenn. Ég á enn eftir að syrgja hann en ég þarf að gera það almennilega. Ég komst ekki í samverustundina en ég mun taka gott móment þegar tími gefst og kveðja hann á almennilegan hátt.“


Tengdar fréttir

Lög­regla lýsir eftir Stefáni Arnari

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Stefáni Arnari Gunnarssyni, 44 ára. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að Stefán Arnar sé búsettur á Arnarhrauni í Hafnarfirði en síðast er vitað um ferðir hans síðdegis í gær.

„Alltaf meira en til í að spila fyrir íslenska landsliðið“

„Ef að kallið kemur þá segi ég já, hundrað prósent,“ segir Kristján Örn Kristjánsson aðspurður hvort að hann gefi kost á sér í íslenska landsliðið í lok apríl þegar liðið lýkur undankeppni EM með tveimur leikjum. Hann missti af síðustu landsleikjum vegna andlegra veikinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×