Handbolti

Við vorum að semja við „einn eftir­sóttasta leik­mann heims“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson á ferðinni í leik með SC Magdeburg á móti Füchse Berlin.
Gísli Þorgeir Kristjánsson á ferðinni í leik með SC Magdeburg á móti Füchse Berlin. Getty/Ronny Hartmann

Íslenski landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson var með samning við SC Magdeburg til ársins 2025 en hann og þýska félagið hans hafa komið sér saman um að framlengja samninginn til ársins 2028.

Gísli Þorgeir verður því á samning hjá Magdeburg næstu fimm árin eða þar til að hann er orðinn 28 ára gamall.

Gísli kom til Magdeburgar frá Kiel árið 2020 en var óheppinn með axlarmeiðsli á fyrstu árum sínum. Honum tókst með dugnaði og vinnu að komast yfir þau og hefur á síðustu árum komist í hóp bestu leikmanna liðsins.

Gísli hefur þannig átt mikinn þátt í titlum Magdeburgar á síðustu árum en liðið hefur bæði unnið þýska meistaratitilinn sem og heimsmeistarakeppni félagsliða.

„Við erum mjög ánægð með að ná að framlengja við Gísla sem er líklega einn eftirsóttasti leikmaður heims. Við gengum frá þessu snemma og náðum langtímasamningi,“ sagði Bennet Wiegert, þjálfari SC Magdeburg, í frétt um samninginn á heimasíðu Magdeburgar.

„Hann hefur tekið risastökk fram á við á síðasta eina og hálfa ári, hefur ótrúlegan sprengikraft og er án efa einn af bestu leikstjórnendum og sóknarmönnum í boltanum í dag. Þessi samningur við hann eru enn ein tímamótin fyrir framtíð SCM,“ sagði Wiegert.

Gísli Þorgeir er sjálfur ánægður með að vera í Magdeburg næstu fimm árin.

´„Hér hjá SCM þá hef ég allt sem ég þarf og það sem gerir mig ánægðan; frábært lið, mjög gott þjálfarateymi og svo fær ég gæsahúð á hverjum heimaleik þökk sé okkar stórkostlegu stuðningsmönnum. Það gerir mig enn ánægðari að gera framlengt samninginn minn um þrjú ár til viðbótar,“ sagði Gísli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×