Handbolti

Gísli Þorgeir og félagar völtuðu yfir lærisveina Guðjóns Vals

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var í sigurliði Magdeburg gegn Gummersbach í dag.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var í sigurliði Magdeburg gegn Gummersbach í dag. Vísir/Getty

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sjö mörk fyrir Magdeburg sem vann tólf marka sigur á Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik.

Magdeburg er í toppbaráttu þýsku deildarinnar en Gummersbach rétt fyrir neðan miðja deild og því var um erfiðan leik að ræða fyrir gestina.

Heimaliðið var með frumkvæðið í fyrri hálfleik, leiddi 20-15 í hálfleik og hélt áfram að auka muninn eftir hlé. Magdeburg náði mest þrettán marka forskoti og sigur liðsins aldrei í hættu. Lokatölur 41-29 og tólf marka sigur heimamanna staðreynd.

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti flottan leik fyrir Magdeburg í dag. Hann skoraði sjö mörk úr tíu skotum og gaf þar að auki þrjár stoðsendingar. Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach og Hákon Daði Styrmisson eitt.

Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach í tapinu gegn Magdeburg.Vísir/Getty

Í Flensburg skoraði Teitur Örn Einarsson eitt mark fyrir heimamenn sem unnu 34-27 sigur á Lemgo. Teitur Örn nýtti sitt eina skot í leiknum en Flensburg leiddi 17-13 í hálfleik og vann sjö marka sigur að lokum.

Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen sem gerði 26-26 jafntefli á útivelli gegn Hannover-Burgdorf. Elvar Örn átti sinn þátt í stigi Melsungen því hann minnkaði muninn í 26-25 einni mínútu fyrir leikslok áður en Timo Kastening jafnaði metin hálfir mínútu síðar.

Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað hjá Melsungen í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×