Handbolti

Álaborg hafði betur í slag dönsku liðanna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Henrik Möllgaard skoraði þrjú mörk fyrir Álaborg í kvöld.
Henrik Möllgaard skoraði þrjú mörk fyrir Álaborg í kvöld. Vísir/Getty

Álaborg er með nauma forystu á GOG eftir sigur í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildar karla í handknattleik.

Aron Pálmarsson var ekki með Álaborg í kvöld vegna meiðsla í læri en lið Álaborgar var laskað enda fleiri lykilmenn fjarverandi.

Leikurinn í kvöld var fyrri leikur liðanna í umspili um sæti í 8-liða úrslitum en leikið var í Álaborg. Jafnt var á með liðunum í upphafi en upp úr miðjum fyrri hálfleik náði heimaliðið forystunni og komst í 15-10 undir lok fyrri hálfleiks.

Staðan í hálfleik 16-13 fyrir Álaborg.

Svipað var uppi á teningunum eftir hlé. Munurinn hélst í tveimur til þremur mörkum en varð mestur fjögur mörk. GOG átti ágætan endasprett og skoraði fjögur af síðustu sex mörkunum.

Álaborg vann að lokum 30-28 sigur og fer því með tveggja marka forystu í síðari leikinn sem fram fer í næstu viku.

Marinus Grandahl var markahæstur hjá Álaborg með sex mörk en Kristian Bjornsen skoraði fimm. Simon Pytlick og Emil Madsen áttu báðir frábæran leik fyrir GOG en þeir skoruðu báðir níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×