Formúla 1

Alonso komst á verðlaunapall í hundraðasta skipti eftir allt saman

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fernando Alonso hefur hundrað sinnum komist á verðlaunapall í Formúlu 1.
Fernando Alonso hefur hundrað sinnum komist á verðlaunapall í Formúlu 1. Ayman Yaqoob/Getty Images

Það var viðburðarrík helgi í Formúlu 1 þar sem keppt var í Sádi-Arabíu að þessu sinni. Sergio Pérez kom, sá og sigraði. Max Verstappen endaði í 2. sæti eftir að byrja fimmtándi í rásröðinni og gamla brýnið Fernando Alonso endaði að lokum í 3. sæti eftir að refsingin sem honum var gefin að kappakstri loknum var dæmd ógild.

Pérez sigraði sannfærandi eftir að hafa hafið leik á ráspól. Það kom þó öllum á óvart að samherji hans hjá Red Bull, heimsmeistarinn Max Verstappen, hafi endað í 2. sæti en það átti að vera nær ógerlegt eftir að Hollendingurinn var aðeins fimmtándi í rásröðinni.

Það má því með sanni segja að Red Bull hafi verið sigurvegarinn í Sádi-Arabíu en Fernando Alonso gæti þó verið ósammála.

Hinn 41 árs gamli Spánverji keyrir í dag fyrir Aston Martin minnti fólk á að allt er fertugum fært þegar hann kom þriðji í mark á sunnudag. Eftir að kappakstrinum lauk fékk hann hins vegar 10 sekúndna refsingu sem gerði það að verkum að George Russell hjá Mercedes stökk upp í 3. sætið á meðan Alonso færðist niður í það fjórða.

Upphaflega fékk Alonso fimm sekúndna refsingu fyrir að vera ekki á réttum stað þegar kappaksturinn hófst. Við það bættust svo aðrar tíu sekúndur þar sem talið var að ökumaðurinn og lið hans hefðu ekki hlýtt fyrstu refsingunni. Sneri hún að því að starfslið Aston Martin hafi snert bílinn áður en fimm sekúndna refsingin var liðin.

Seinni refsingunni var ekki bætt við fyrr en eftir að kappakstrinum lauk og hélt því Alonso lengi vel að hann hefði endað í 3. sæti og þar með komist í 100. sinn á verðlaunapall á ferli sínum. Tilkynnt var um refsinguna og að Alonso hefði fallið niður í 4. sæti en vinnuveitandi Alonso, Aston Martin, sendi inn formlega kvörtun.

Sýndu þeir fram á að lið hefðu ekki fengið frekari refsingu þrátt fyrir starfslið hefði komið við bíl áður en refsing þess ökumanns væri liðin. Þar með var síðari refsingin felld niður og endaði Alonso í 3. sæti eftir allt saman.

Staðan í Formúlu 1 er nú þannig að Red Bull trónir á toppnum í liðakeppninni með 87 stig á meðan Aston Martin kemur þar á eftir með 37 stig. Max Verstappen og Pérez tróna svo á toppnum í keppni ökumanna með 44 og 43 stig. Alonso er þriðji með 30 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×