Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Frigusar, sagði í samtali við fréttastofu að nú yrði lagst yfir dóminn og framhaldið skoðað. Lögmaður Lindarhvols vildi ekki tjá sig um málið.
Frigus II ehf höfðaði mál á hendur Lindarhvoli ehf og íslenska ríkinu og krafðist um það bil 650 milljón króna í skaðabætur vegna sölu Lindarhvols á hlutafé í Klakka ehf árið 2016. Upphæðin nemur þeim hagnaði sem Frigus hefði notið ef tilboði Kviku banka hf fyrir hönd Frigusar hefði verið tekið.
Lindarhvoll auglýsti hlutafé í Klakka og aðrar eignir til sölu 29. september 2016. Í stefnu Frigusar segir að upplýsingagjöf í aðdraganda sölunnar hafi verið afar óbótavant; aðeins einblöðungur og engin leið til að átta sig á undirliggjandi verðmætum Klakka.
Þrír gerðu tilboð í eignirnar; Kvika, BLM fjárfestingar ehf og Ásaflöt ehf. Í stefnunni segir að eini stjórnarmaður BLM fjárfestinga hafi jafnframt verið forstjóri Klakka og stjórnendur Ásaflatar verið stjórnendur hjá Klakka.
Tilboð Kviku (Frigusar) hljóðaði upp á 501 milljón króna, tilboð BLM upp á 505 milljónir króna og tilboð Ásaflatar upp á 502 milljónir króna. Gengið var til samninga við BLM, sem var veitt seljendalán sem þurfti ekki að greiða fyrir en Fjármálaeftirlitið var búið að fjalla um málið.
Forsvarsmenn Frigusar telja að tilboð Kviku hafi í raun verið hagstæðasta boðið, annars vegar vegna þess að hin tilboðin hafi verið ógild og hins vegar vegna núvirðisútreiknings. Þá telja þeir stjórn og forsvarsmenn Lindarhvols hafa brotið með margvíslegum hætti gegn þeim reglum sem giltu um Lindarhvol, að því er segir í stefnunni.
Þar segir ennig að Steinari Þór Guðgeirssyni, stjórnarformanni ráðgjafa Lindarhvols og stjórnarformanni Klakka, hafi verið fullkunnugt um að fyrirliggjandi væru þýðingarmiklar óbirtar fjárhagsupplýsingar um félagið.
„Þá vissi hann að BLM fjárfestingar, sem stýrt er af forstjóra Klakka, væri að reyna að auka hlut sinn í Klakka, en BLM fjárfestingar hafi gert Lindarhvoli yfirtökutilboð í hlut Lindarhvols í Klakka þann 30. september 2016 að upphæð 428 milljónir króna,“ segir í stefnunni.
Mikið hefur verið deilt um Lindarhvol og umsýslu félagsins með eignir ríkisins. Deilt hefur verið um raunverulegt virði Klakka auk þess sem þingmenn hafa síðustu vikur tekist hart á um birtingu greinargerðar þáverandi setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar.