Körfubolti

Okla­homa að valda Lakers og Dallas vand­ræðum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Shai Gilgeous-Alexander og félagar í Oklahoma City Thunder ætla sér í úrslitakeppnina.
Shai Gilgeous-Alexander og félagar í Oklahoma City Thunder ætla sér í úrslitakeppnina. Alex Goodlett/Getty Images

Átta leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Milwaukee Bucks lagði Kevin Durant-laust lið Phoenix Suns nokkuð þægilega. Los Angeles Lakers sneri aftur á sigurbraut og þá vann Oklahoma City Thunder góðan endurkomusigur á Brooklyn Nets. Sá sigur lagði stein í götu Dallas Mavericks sem og Lakers.

Nets var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og var tíu stigum yfir, staðan 62-52. Í þriðja leikhluta fór allt á flug hjá Thunder sem vann á endanum leikinn 121-107. Þeirra sjötti sigur í síðustu sjö leikjum.

Eins og svo oft áður var Shai Gilgeous-Alexander þeirra stigahæsti maður en hann skoraði 35 stig í nótt. Josh Giddey bauð hins vegar upp á þrefalda tvennu. Hann skoraði 15 stig, tók 13 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Sigur, og sigrar OKC, að undanförnu eru ekki góðar fréttir fyrir Dallas og Lakers. Baráttan um sæti í úrslitakeppni Vesturdeildar er hörð og sem stendur hafa öll þrjú liðin unnið 34 leiki og tapað 35. OKC er hins vegar í 8. sæti á meðan hin tvö reka lestina vegna innbyrðisviðureigna.

Dallas og Lakers höfðu gert sér vonir um að sleppa við að fara í umspilið og komast beint í úrslitakeppnina en til að það gangi eftir þarf Lakers að halda áfram að vinna leiki – liðið hefur unnið 7 af síðustu 10 – og Dallas þarf að snúa gengi sínu við hratt – liðið hefur unnið 3 af síðustu 10.

Eftir að tapa fyrir New York Knicks í síðustu umferð þá vann Los Angeles Lakers 15 stiga sigur á New Orleans Pelicans í nótt, lokatölur 123-108. Lakers lagði grunninn að frábærum sigri með ótrúlegum fyrri hálfleik en munurinn var 35 stig þegar liðin gengu til búningsherbergja. Sjálfkrafa slakaði liðið ef til vill full mikið á klónni í síðari hálfleik.

Anthony Davis var stigahæstur í liði Lakers með 35 stig ásamt því að taka 17 fráköst. Malik Beasley skoraði 24 stig. Í liði Pelicans voru þrír leikmenn með 20 stig eða meira: Trey Murphy III og Herb Jones skoruðu 20 á meðan Brandon Ingram var stigahæstur með 22 stig.

Giannis Antetokounmpo skoraði 36 stig og tók 11 fráköst þegar Bucks vann tólf stiga sigur á Suns í nótt, lokatölur 116-104. Brook Lopez skoraði 21 stig og tók 10 fráköst í liði Bucks á meðan Devin Booker var stigahæstur hjá Suns með 30 stig.

Bucks eru áfram á toppnum í Austrinu og gætu nú tapað öllum þeim leikjum sem eftir eru í deildarkeppninni en samt komist í úrslitakeppnina. Suns virðast hins vegar á hraðri leið niður töfluna í Vestrinu með þessu áframhaldi.

Fred VanVleet skoraði 36 stig þegar Toronto Raptors skelltu Nikola Jokić og félögum í Denver Nuggets, 125-110. Jokić skoraði 28 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Önnur úrslit

Washington Wizards 117-97 Detroit Pistons

Portland Trail Blazers 107-123 New York Knicks

San Antonio Spurs 132-114 Orlando Magic

Charlotte Hornets 104-120 Cleveland Cavaliers
Fleiri fréttir

Sjá meira


×