Handbolti

Ólafur í Svíþjóð til 2026: „Akkúrat týpan sem við þurftum“

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafur Guðmundsson í leik með landsliðinu á HM í janúar.
Ólafur Guðmundsson í leik með landsliðinu á HM í janúar. VÍSIR/VILHELM

Ólafur Guðmundsson, landsliðsmaður í handbolta, flytur aftur til Svíþjóðar frá Sviss í sumar og gengur í raðir Karlskrona. Óvíst er hvort hann spili með liðinu í efstu eða næstefstu deild.

Karlskrona staðfesti komu Ólafs á heimasíðu sinni í dag þar sem fram kom jafnframt að samningur hans við félagið væri til ársins 2026. Það þýðir að Ólafur verður orðinn 36 ára gamall þegar samningstímanum lýkur.

Hjá Karlskrona hittir Ólafur meðal annars fyrir Ola Lindgren sem stýrði honum hjá Kristianstad um árabil, en þar var Ólafur í miklum metum og um tíma fyrirliði liðsins, áður en hann kvaddi árið 2021. Síðan þá hefur hann spilað með Montpellier í Frakklandi og svo Amicitia Zürich í Sviss í vetur.

„Ólafur er akkúrat týpan af leikmanni sem við þurftum. Skytta í háum gæðaflokki sem einnig býr yfir mikilli reynslu. Við hlökkum til að vinna með honum næstu þrjár leiktíðir,“ sagði Tobias Karlsson, íþróttastjóri Karlskrona.

Karlskrona er í baráttu um að vinna sér sæti í efstu deild Svíþjóðar.

„Ef að við förum upp í úrvalsdeild verður Ólafur mikilvægur púslbiti í að festa okkur í sessi í efstu deild. Ef að við spilum í næstefstu deild verður markmiðið okkar að fara upp á næsta ári. Við erum í dag með topplið í deildinni og með því að bæta gæðaleikmanni á borð við Ólaf við þá er raunhæft að við náum því,“ sagði Karlsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×