Skoðun

Tvö­földun Reykja­nes­brautar bætir um­ferðar­öryggi

Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar

Tvöföldun Reykjanesbrautar frá gatnamótunum við Krýsuvík að Hvassahrauni hefur verið boðin út. Það er mikið gleðiefni. Hér er um að ræða 5,6 kílómetra kafla, en þar undir eru einnig bygging brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi. Þetta er brýn framkvæmd sem mun auka umferðaröryggi til muna og fækka slysum á þessum vegkafla. Álagið á Reykjanesbrautinni hefur aukist til muna með stærri byggð suður með sjó samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna á síðustu árum.

Þær jákvæðu fréttir bárust síðan í liðinni viku að Ísland hafi bætt stöðu sína í umferðaröryggi samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum Evrópusambandsins. Þær tölur byggja á fjölda látinna í umferðinni miðað við hverja 100.000 íbúa í ríkjum Evrópu.

Við sem þjóð erum þar í þriðja sæti á eftir Noregi og Sviðþjóð með fæst banaslys árið 2022. Hér er auðvitað ýmislegt sem hefur áhrif og má þar nefna að ökutækin eru orðin öruggari, vegir eru orðnir betri auk þess sem fræðsla og forvarnir eru að skila sér í bættri hegðun í umferðinni.

Fréttir sem þessar eru auðvitað gleðilegar; þær skipta máli og sýna það svart á hvítu að við erum á réttri leið. Það gerist ekki af sjálfu sér, heldur hefur ráðherra samgöngumála verið með sérstaka áherslu á umferðaröryggismál síðustu ár sem nú er að skila sér. Að því sögðu er nauðsynlegt að ítreka það, og taka sérstaklega fram, að hvert banaslys í umferðinni er einu banaslysi of mikið. Við þurfum því stöðugt að halda áfram og reyna með öllum tiltækum ráðum og aðgerðum að fyrirbyggja slík slys.

Höfundur er þingmaður Framsóknar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×