Áskorun

Samsett fjölskylda: Stjúpforeldrar oft óöryggir með hlutverk sitt

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Ragnheiður Kristín Björnsdóttir para- og fjölskylduráðgjafi hjá Lausninni segir það svo ánægjulega og dýrmæta reynslu þegar vel tekst til hjá samsettum fjölskyldum. Áskoranirnar eru hins vegar margar og hennar reynsla er sú að fólk leiti ekki til fagaðila fyrr en allt er komið í óefni. Alls kyns mál geta komið upp, óháð því á hvaða aldri börn úr fyrra sambandi eru.
Ragnheiður Kristín Björnsdóttir para- og fjölskylduráðgjafi hjá Lausninni segir það svo ánægjulega og dýrmæta reynslu þegar vel tekst til hjá samsettum fjölskyldum. Áskoranirnar eru hins vegar margar og hennar reynsla er sú að fólk leiti ekki til fagaðila fyrr en allt er komið í óefni. Alls kyns mál geta komið upp, óháð því á hvaða aldri börn úr fyrra sambandi eru. Vísir/Christine Gisla

Í flestum stórfjölskyldum þekkjast dæmi um samsettar fjölskyldur. Þar sem par tekur saman með börn úr fyrra sambandi, ýmist frá öðrum aðilanum eða báðum.

Fátt er jafn dýrmætt og einmitt þegar vel tekst til. Og úr verður yndisleg ný eining sem byggir upp sínar eigin rætur, hefðir og venjur.

„Það er svo ánægjuleg og dýrmæt reynsla þegar vel tekst til hjá samsettum fjölskyldum. Ég þekki það sjálf því stjúpmóðir mín er yndisleg kona og ég gæti ekki hafa verið heppnari. En fjölskyldur standa frammi fyrir áskorunum þegar par er að hefja sambúð, þar sem barn eða börn úr fyrri samböndum eru til staðar. Þess vegna er svo mikilvægt að ræða málin vel fyrirfram, hvaða væntingar fólk hefur, hvernig það sér fyrir sér að hlutirnir verði og svo framvegis,“ segir Ragnheiður Kristín Björnsdóttir para- og fjölskylduráðgjafi hjá Lausninni, en bætir við:

„Mín reynsla er því miður sú að fólk leitar oft ekki til fagaðila fyrr en málin eru orðin ansi erfið.“

Áskorun er nýr efnisflokkur á Vísi þar sem við fjöllum á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, fíkn, bata, sorg, dauða, aldurstengd mál og fleira.

Ósætti foreldra bitnar á börnunum

Ragnheiður starfar sem fjölskyldufræðingur hjá Lausninni, fjölskyldu- og áfallamiðstöð. Ragnheiður sérhæfir sig í parasamböndum, fjölskyldum, samskiptum, streitu, sjálfstyrkingu og kulnun í starfi og einkalífi. Ragnheiður er einnig menntaður hjúkrunarfræðingur og starfar einnig í hlutastarfi hjá geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

„Það er hægt að leysa úr flestum málum með góðum samskiptum og vilja. Stundum með því að parið ræði málin vel saman og stundum með því að fá fagaðila inn í samtalið. Það sem oft veldur togstreitu eru óraunhæfar væntingar. 

Að verða stjúpforeldri er líka flókið hlutverk sem oft reynir á og ekki má vanmeta það. 

Hvað má ég og hvað ekki þegar kemur að uppeldi stjúpbarna? 

Til hvers er ætlast til af mér? eru spurningar sem eðlilegt er að stjúpforeldri spyrji sig.“

Ragnheiður segir að þegar skilnaðurinn gangi illa og það eru ósætti milli foreldra, gleymist oft að taka tillit til þarfa og réttinda barna.

„Aðstæður eru mismunandi. En því miður eru það oftast börnin sem líða fyrir ósætti foreldranna. Ég þekki dæmi þess að ósáttur fyrrum maki hafi sagt börnunum sínum að koma illa fram við nýja stjúpforeldrið. Þá eru dæmi um að uppkomin börn séu ósátt, þótt fyrrverandi makinn sé sáttur.“

Ragnheiður segir lykilatriði að bregðast við með skilningi.

„Sama hverjar aðstæður eru er því mikilvægt að fullorðna fólkið leggi sig fram við að vera vakandi um líðan barnanna. Hvernig er þeim að líða? Hvernig eru þau að upplifa breytingarnar og aðstæður? Ekki fara í vörn ef eitthvað er, heldur leggja sig fram við að hlusta á hvað þau hafa að segja, sýna þeim skilning. Því skilnaður og jafnvel nýtt samband foreldra kallar á miklar breytingar sem börnin þurfa að aðlagast jafnvel á skömmum tíma,“ segir Ragnheiður og bætir við:

„Það er líka svo mikilvægt að vera til staðar fyrir börnin sín í þessu ferli. Börn skilja oft ekki hvað skilnaður þýðir og þau ganga jafnvel í gegnum sorgarferli. En í sumum tilfellum fá börnin meiri athygli frá mömmu eða pabba heldur þau gerðu þegar foreldrarnir voru í óhamingjusömu sambandinu.

Ragnheiður segir stjúpforeldra oft óörugga með hlutverk sitt. Stundum gleymist að hafa þá í ráðum eða upp koma aðstæður þar sem stjúpforeldrið veit ekki til hvers er ætlast til þeirra í uppeldinu. Þá þekkir hún dæmi þess að börnum hafi hreinlega verið sagt að koma illa fram við stjúpforeldri af ósáttum fyrrverandi maka. Vísir/Christine Gisla

Stjúpforeldrar oft óöruggir hlutverk sitt

Ragnheiður segir mörg mál geta komið upp þótt allir séu á eitt sammála um að spila sem best úr hlutunum þegar pör hefja sambúð með börn úr fyrra sambandi.

Og Ragnheiður nefnir nokkur dæmi.

Til dæmis segir hún það oft gleymast þegar nýja parið eignast barn hversu mikið álag þetta er fyrir nýbakaða móður. Fyrir eru kannski börnin hennar á heimilinu og svo á makinn börn sem koma kannski viku og viku eða um helgar og vilja jafnvel koma oftar til þess að vera með nýja systkininu.

„Ég hef fengið þó nokkur dæmi þar sem feðrum finnst sjálfsagt að börnin komi, sem öllu jafnan ætti að vera sjálfsagt, en þeir gera engar breytingar á sinni viðveru. Þarna byrjar oft núningur og sársauki í nýja parsambandinu og þarna þarf fólk að ræða saman og pabbar að taka tillit til aðstæðna og vera meira til staðar til þess að létta undir á þessu álags tímabili.“

Annað dæmi eru hnökrar á samskiptum og upplýsingamiðlun á milli para.

„Ímyndum okkur ungling sem býr hjá pabba en kemur til mömmu og nýja mannsins þegar hann vill. Unglingurinn spyr svo mömmu hvort hann megi koma með vini næstu helgi og hafa bíókvöld og mamma segir já elskan ekkert mál en gleymir að láta manninn sinn vita svo kemur maðurinn heim og er þreyttur og hafði hugsað sér að slaka á fyrir framan sjónvarpið en í sjónvarpsherberginu eru unglingarnir að gera það sem samið hafði verið um við mömmu. Makinn verður svekktur og reiður og finnst staða hans óljós þar sem hann var ekki hafður með í ráðum. Það er sjálfsagt auðvelt að gleyma sér en lágmark að upplýsa makann og hafa hann með í ráðum.“

Þá segir Ragnheiður aðstæður geta orðið afar flóknar ef samskipti eða ósætti eru mikil við fyrrverandi maka.

„Ósáttur fyrrum maki beitir stundum börnunum fyrir sig og meinar þeim jafnvel að hitta foreldri sitt. Það eru þó nokkur dæmi um þetta og til mín hafa leitað ósáttir og sorgmæddir feður jafnvel uppkominna barna sem hafa misst af samskiptum við börnin sín. Ég vona að löggjafinn vandi sig í þessum málum og að réttur barnsins til þess að þekkja báða foreldra sé virtur svo fremi að barninu stafi ekki hætta af því að umgangast báða eða annað foreldri sitt.“

Enn ein aðstaðan sem getur komið upp þegar par hefur sambúð er að nýji makinn er ekki sáttur við einhverjar aðstæður sem eru ríkjandi heima.

Ímyndum okkur að það sé sonur sem er orðinn nokkuð stálpaður, kannski á þrítugsaldri. Og hefur búið einn með mömmu sinni nokkuð lengi þegar nýr maður kemur inn á heimilið. 

Nýi maðurinn gæti tekið eftir einhverju mynstri heima fyrir sem hann telur vera óheilbrigt og ekki eðlilegt. En er fyrir löngu orðið að einhverri fastri venju hjá móður og syni. 

Þarna getur meðvirkni verið ákveðið vandamál og skapað togstreitu þar sem blóðforeldrið fer í vörn og á á erfitt með að takast á við óheilbrigt ástand sem hefur verið ríkjandi.“

Ragnheiður segir mikilvægt að fara ekki í vörn þegar málin eru rædd og sérstaklega þarf að huga að og virða tilfinningar barna. Það eigi ekki aðeins við um ung börn því dæmi eru um að uppkomin börn séu mjög ósátt við nýtt parsamband foreldris, þótt fyrrverandi maki sé sáttur.Vísir/Christine Gisla

Góðu ráðin

Ragnheiður segir það afar mismunandi, hversu langan tíma það tekur fyrir samsetta fjölskyldu að fóta sig þannig að samskipti, upplýsingamiðlun og almenn vellíðan sé til staðar hjá öllum. Stundum gangi hlutirnir hratt fyrir sig en stundum kalli aðstæður einfaldlega á lengri tíma.

Þá segist hún benda á Facebookgrúppur sem leið til að bæta upplýsingamiðlun.

„Þegar samskipti eru góð milli allra aðila sem koma að uppeldi barns þá hef ég ráðlagt fólki sem á börn sem eru til dæmis viku og viku hjá sitthvoru foreldrinu og eru á skólaaldri að stofna facebook grúbbu þar sem allir aðilar sem koma að barninu og barnið sjálft taka þátt. Þarna væri vettvangur til þess að veita upplýsingar um dagskrá barnsins og ræða um hver skutli eða fari með barnið til tannlæknis og svo framvegis,“ segir Ragnheiður.

Eins ef einhverjar breytingar eiga sér stað og ekki síst fyrir barnið ef það orðið nógu stálpað til þess að taka þátt í samræðunum að það hafi líka rödd og að ákvarðanir séu teknar í samráði og allir viti hvernig dagurinn lítur út. 

Þetta fyrirkomulag ætti eingöngu að þjóna þeim tilgangi að létta lífið og notað þegar samvinna er góð en ekki til þess að rífast eða kíta. 

Gott skipulag í upptekinni dagskrá er líklegt til þess að létta á spennunni og minnka streituvaldandi uppákomur.“

Önnur góð ráð sem Ragnheiður leggur áherslu á eru:

  • Það er mikilvægt að leggja áherslu á góð samskipti í fjölskyldum. Gefið ykkur tíma til þess að kynnast hvort öðru og passið uppá að allir fái tækifæri til þess að koma sjónarmiðum, hugsunum og tilfinningum sínum á framfæri.
  • Setjið skýr mörk og reglur snemma í ferlinu þá þarf engin að velkjast í vafa um hvers sé ætlast til af hverjum og einum miðað við aldur og stöðu innan fjölskyldunnar.
  • Allir fjölskyldumeðlimir eru einstakir og eiga mismunandi reynslu að baki og hafa jafnvel ólíkar skoðanir. Forðist að dæma eða gera lítið úr skoðunum annara fjölskyldumeðlima.
  • Gefið nýju fjölskyldunni tíma til þess að vaxa og dafna, stjúpfjölskyldur þurfa góðan aðlögunartíma. Sýnið þolinmæði og ekki gera ykkur væntingar um að allt gangi upp á stuttum tíma.
  • Leitið fagaðstoðar ef þörf krefur, til dæmis ef aðlögunin gengur ekki nógu vel. Fagaðilar eins og fjölskyldufræðingar, sálfræðingar, geðhjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar eða aðrir fagaðilar sema hafa þekkingu og reynslu á málefnum fjölskyldna geta aðstoðað við þær áskoranir sem fjölskyldan stendur frammi fyrir.
  • Fagnið því þegar vel gengur og komið auga á það jákvæða sem nýja fjölskyldan býr yfir í stað þess að dvelja við það neikvæða. Talið um það hvað þið kunnið að meta í fari fjölskyldumeðlima, það styrkir sjálfsmynd barna og kennir þeim að meta sig og aðra að verðleikum. Ræðið um hvað ykkur finnst gaman að gera saman sem fjölskylda.

„Að stofna til nýrrar fjölskyldu er oftast heilmikil áskorun en einnig í flestum tilfellum líka mjög gefandi. Góð samskipti, gagnkvæm virðing og þolinmæði eru mikilvæg í öllum samböndum og sérlega mikilvæg í samsettum fjölskyldum,“ segir Ragnheiður.


Tengdar fréttir

Að eldast á besta aldri

Það getur verið á svo mismunandi aldri sem við förum að hugsa um að við séum að eldast. Eða finnast við vera að eldast. Hver kynslóð er líka að verða eldri og því er fleygt fram að börn sem fæðast eftir aldamótin síðustu, verði að meðaltali yfir 100 ára gömul.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×