Handbolti

Leið Ólafs liggur aftur til Svíþjóðar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Guðmundsson í leik gegn Suður-Kóreu á HM í janúar.
Ólafur Guðmundsson í leik gegn Suður-Kóreu á HM í janúar. vísir/vilhelm

Handboltamaðurinn Ólafur Guðmundsson fer aftur til Svíþjóðar eftir þetta tímabil og gengur í raðir Karlskrona.

Aftonbladet greinir frá þessu. Í frétt blaðsins segir að fjölskylda Ólafs vilji flytja aftur til Kristianstad þar sem hann lék lengi. Karlskrona er um hundrað kílómetra frá Kristianstad.

Ólafur lék með Kristianstad á árunum 2012-14 og 2015-21 og var um tíma fyrirliði liðsins. Hann lék með Montpellier í Frakklandi á síðasta tímabili en fór svo til Amicitia Zürich í Sviss í sumar. Ólafur er samningsbundinn Amicitia Zürich í tvö ár til viðbótar en hann vill nú komast aftur til Svíþjóðar.

Karlskrona er í 2. sæti B-deildarinnar og í frétt Aftonbladet segir að Ólafur muni ganga í raðir liðsins, sama þótt það komist ekki upp í úrvalsdeildina.

Ólafur, sem er 32 ára, hefur leikið sem atvinnumaður erlendis síðan 2011. Hann hefur leikið 142 landsleiki og spilað með íslenska landsliðinu á fjölmörgum stórmótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×