Skoðun

Bannað að spyrja um eigna­sölu Bjarna

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokks hafa nú beitt meirihlutavaldi á Alþingi til að banna mér að spyrja forseta Alþingis um greinargerð sem fjallar um sölu Bjarna Benediktssonar á tugmilljarða eignum ríkisins í gegnum einkahlutafélagið Lindarhvol ehf.

Greinargerðin var afhent Alþingi árið 2018 og forsætisnefnd hefur tekið sérstaka ákvörðun um að birta hana. Engu að síður situr forseti Alþingis á skjalinu og neitar að afhenda það eða upplýsa hvað kemur þar fram.

Fyrirspurn minni var synjað á þeim forsendum að hún varðaði ekki „stjórnsýslu á vegum þingsins“, sbr. 3. mgr. 8. gr. þingskapalaga um fyrirspurnir til forseta. Það er rangt af þremur ástæðum:

  • Í fyrsta lagi er greinargerðin miðpunkturinn í sérstöku stjórnsýslumáli hjá forsætisnefnd sem margsinnis hefur verið fjallað um á fundum nefndarinnar og í bréfum forseta til stjórnvalda.
  • Í öðru lagi liggur fyrir að forsætisnefnd hefur þegar tekið ákvörðun um að veittur skuli aðgangur að skjalinu á grundvelli upplýsingalaga með vísan til þess að gildissvið þeirra taki til stjórnsýslu Alþingis. Sú ákvörðun forsætisnefndar getur ekki byggt á öðru en að skjalið sjálft tilheyri stjórnsýslu Alþingis.
  • Í þriðja lagi kemur orðrétt fram í bréfi sem þáverandi forseti Alþingis sendi stjórn Lindarhvols ehf. 4. júní 2021 að málið væri „til skoðunar hjá forsætisnefnd Alþingis á þeim grundvelli að skjalið sé hluti af stjórnsýslu þess“. Þannig hefur forsætisnefnd sjálf haft skjalið til meðferðar á þeim forsendum að það sé beinlínis hluti af stjórnsýslu Alþingis.

Að framansögðu má vera ljóst að fyrirspurnin uppfyllir skilyrði þingskapalaga. Synjun forseta á henni er ólögmæt og afgreiðsla meirihlutans á Alþingi gerræðisleg og setur hættulegt fordæmi.

Greinargerðin sem ég spyr um var unnin af embættismanni Alþingis í umboði almennings, fyrir fjármuni almennings og fjallar um sölu á eignum almennings.

Eftir stendur spurningin: hvað er það sem almenningur má ekki sjá?

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×