Handbolti

Bestir í klefanum: Sögur af fjórum geirvörtum og nöktum manni á Blönduósi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Agnar Smári Jónsson gaf Þorgrími Smára leyfi að birta þessa mynd.
Agnar Smári Jónsson gaf Þorgrími Smára leyfi að birta þessa mynd. Úr einkasafni

Þorgrímur Smári Ólafsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, bauð upp á topplista í síðasta þætti en þar valdi hann þá bestu í klefanum frá hans ferli í handboltanum.

Alls voru fimm sem komust á listann á endanum en það voru auðvitað margir tilkallaðir. Þorgrímur Smári sagði skemmtilegar sögur af þeim mönnum sem komust á listann hans.

Markvörðurinn Hlynur Morthens varð í fimmta sæti en Þorgrímur Smári hrósaði honum sérstaklega fyrir að koma vel fram við yngri leikmenn félagsins.

„Hann kenndi mér eitt hann Hlynur. Það var það að þú átt alltaf að vera góður og almennilegur við krakkana í yngri flokkunum því þú veist aldrei hvenær þeir banka upp á í meistaraflokki og einn daginn ertu farinn að spila með honum,“ sagði Þorgrímur Smári Ólafsson.

„Hlynur kenndi mér margt og það er alltaf gaman að hitta Hlyn. Það er gaman að vera með honum innan vallar sem utan,“ sagði Þorgrímur Smári.

Næstu menn á listanum voru þeir Ólafur Ægir Ólafsson og Atli Már Báruson.

„Læðan er í þriðja sætinu. Það er farið að kalla hann bónda þannig að ég klippti þessa mynd af honum aðeins til. Það vita ekki allir söguna af því af hverju hann er kallaður Læðan. Ég fékk leyfi frá honum til að segja þá sögu,“ sagði Þorgrímur.

„Læðunafnið er tilkomið vegna þessa að Atli er með fjórar geirvörtur. Hann er með tvær stórar geirvörtur og tvær pinkulitlar undir sem þekkist alveg í þessum heimi. Fannar Þór Friðgeirsson sagði einhvern tímann við hann: Atli þú ert bara eins og læða,“ sagði Þorgrímur og sagði einnig frá liðspartýinu þar sem læðunafnið festist endanlega við Atla.

Næstir á lista voru síðan Lárus Helgi Ólafsson, bróðir Þorgríms og svo maðurinn i toppsætinu sem fékk mynd af sér á Adamsklæðunum. Þorgrímur tók fram að hann fékk leyfi fyrir að birta hana.

„Allir sem hafa spilað með Agnari Smára Jónssyni vita að þetta er algjör gull af manni. Þegar ég kom í Val þá var það fyrsta sem hann sagði við mig: Toggi ég er svo ánægður með að þú komst í Val því þá er ég ekki eini heimski maðurinn á svæðinu,“ sagði Þorgrímur.

Þorgrímur Smári birti síðan myndina af Agnari Smára sem var tekin á Blönduósi. Hér fyrir neðan má sjá allan listann sem og alla umræðuna og sögurnar.

Klippa: Seinni bylgjan: Bestir í klefanum að mati Togga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×