Handbolti

„Haldið að við eigum að vinna alla leiki með þrjátíu mörkum, það er alveg merkilegt með ykkur á Stöð 2“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst Jóhannsson er með Valsstelpurnar sínar á toppi Olís-deildarinnar.
Ágúst Jóhannsson er með Valsstelpurnar sínar á toppi Olís-deildarinnar. vísir/diego

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, var temmilega sáttur eftir leikinn gegn Fram sem vannst, 24-22. Hann nýtti tækifærið og skaut aðeins á kröfuharða sérfræðinga Stöðvar 2 Sports.

„Um miðjan seinni hálfleikinn náðum við 2-3 ágætis mörkum úr seinni bylgju. Þær misstu menn út af og við nýttum það ágætlega en svo sem ekkert mikið meira en það. Við náðum ágætis forskoti en vorum svo næstum búin að klúðra því fyrir eigin aulaskap en við unnum og ég er sáttur með það,“ sagði Ágúst við Vísi eftir leik.

„Þetta var bara erfið fæðing. Við erum auðvitað að spila við Fram. Þið haldið að við eigum að vinna alla leiki með þrjátíu mörkum, það er alveg merkilegt með ykkur á Stöð 2. Það er ekki nóg að vinna. En við vorum bara í hörkuleik við Fram sem er vel skipað við. Hafdís [Renötudóttir] varði rosalega mikið frá okkur og þær hlupu vel til baka þannig við náðum fáum hraðaupphlaupum. Þess vegna var þetta þungur leikur. Ég er ánægður að ná í tvö stig. Ekki okkar besti leikur en jákvætt að ná í tvo punkta.“

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var ófeiminn við að prófa hinar ýmsu útfærslur á vörn liðsins í dag. Ágústi fannst sitt lið leysa það þokkalega.

„Ég talaði við Stefán í gær og bað hann um að vera eins og maður en það er eins og það er. Maður getur búist við öllu. Þær eru fastar í 4. sætinu og ég átti alveg von á því að það yrði vesen á honum,“ sagði Ágúst léttur í lundu.

„Við sköpuðum okkur alveg færi þótt þetta væri ekki fallegt á köflum. Við leystum þetta ágætlega, sérstaklega þegar þær spiluðu 5+1. Við vorum aðeins í brasi með 4-2 vörnina en bara gott að klára þetta og ég er sáttur með það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×