Handbolti

Handarbrotnaði aðeins 23 mörkum frá markametinu í þýsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hans Lindberg á íslenska foreldra en valdi það að spila fyrir Danmörku þar sem hann ólst upp.
Hans Lindberg á íslenska foreldra en valdi það að spila fyrir Danmörku þar sem hann ólst upp. Getty/Florian Pohl/

Hinn dansk-íslenski Hans Óttar Lindberg Tómasson verður ekki með Füchse Berlin á næstunni eftir að hafa handarbrotnað í Evrópuleik í vikunni.

Füchse Berlin staðfesti meiðslin á miðlum sínum en leikmaðurinn er brotinn á hægri hendi, ekki skothendinni, og verður því frá keppni í nokkrar vikur.

Hans Óttar skoraði sitt þúsundasta mark í Evrópukeppni í leiknum afdrifaríka en það er eitt met sem hann var með í sjónmáli.

Hans vantar aðeins 23 mörk í að verða markahæsti leikmaðurinn í sögu Bundesligunnar. Metið á Kóreumaðurinn Yoon Kyung-shin sem skoraði 2905 mörk frá 1996 til 2008. Hans komst upp fyrir danska hornamanninn Lars Christiansen í desember síðastliðnum.

Hans Óttar er orðinn 41 árs gamall og því gæti hann þurft að spila annað tímabil ætli hann sér að slá þetta markamet. Hann hefur hins vegar ekkert gefið eftir og er meðal markahæstu leikmanna þýsku deildarinnar í ár.

Hans Lindberg hefur skorað 123 mörk í þýsku deildinni í vetur og þar með 2882 mörk samanlagt. Hann hefur skorað þessi mörk í 457 leikjum eða 6,3 mörk í leik en 1358 markanna hafa komið af vítalínunni.

Füchse brást við meiðslunum með því að semja við Austurríkismanninn Robert Weber sem er sjálfur meðal fimm markahæstu leikmanna í sögu þýsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×