Handbolti

Þrettán ís­lensk mörk er Leipzig vann Ís­lendinga­slaginn með minnsta mun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Leipzig í kvöld.
Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Leipzig í kvöld. Hendrik Schmidt/picture alliance via Getty Images

Viggó Kristjánsson var næst markahæsti leikmaður Leipzig með sex mörk er liðið vann nauman eins marks sigur gegn Íslendingaliði MT Melsungen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 28-29.

Leipzig, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, hafði tapað seinustu tveimur deildarleikjum sínum í röð, en liðið hafði farið virkilega vel af stað eftir að Rúnar tók við stjórnartaumunum fyrr í vetur.

Það voru einmitt gestirnir í Leipzig sem höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik þar sem liðið náði mest fjögurra marka forskoti. Viggó og félagar héldu heimamönnum í hæfilegri fjarlægð út hálfleikinn og staðan var 15-18 þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimamenn í Melsungen fóru þó vel af stað í síðari hálfleik og náðu fljótt að snúa leiknum sér í hag. Melsungen náði tveggja marka forskoti um miðbik seinni hálfleiks og hafði enn forystuna í stöðunni 27-26. Þá skoruðu gestirnir hins vegar þrjú mörk í röð og gerðu út um leikinn. Niðurstaðan varð því eins marks sigur Leipzig, 28-29.

Eins og áður segir skoraði Viggó Kristjánsson sex mörk fyrir Leipzig í kvöld, en Arnar Freyr Arnarsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen og Elvar Örn Jónsson tvö.

Leipzig situr nú í ellefta sæti deildarinnar með 18 stig eftir 19 leiki, tveimur stigum minna en Melsungen sem situr í sjöunda sæti, en hefur leikið einum leik meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×