Handbolti

Yfir þrettán hundruð mörk verið skoruð í deildinni síðan Eyja­menn spiluðu síðast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kárason og félagar í ÍBV liðinu hljóta að vera orðnir mjög spenntir fyrir að spila handboltaleik.
Rúnar Kárason og félagar í ÍBV liðinu hljóta að vera orðnir mjög spenntir fyrir að spila handboltaleik. Vísir/Diego

Þremur fyrstu deildarleikjum Eyjamanna eftir HM-frí hefur verið frestað sem þýðir að Eyjaliðið hefur ekki spilað leik í Olís deild karla síðan 3. desember á síðasta ári.

Síðasti deildarleikur ÍBV var á móti Val fyrsta laugardaginn í desembermánuði og tapaðist hann með fimm mörkum, 33-38.

Síðan eru liðnir 74 dagar en Eyjamann ættu að vera búnir að spila þrjá leiki á nýju ári.

Leikjum þeirra á móti Herði, ÍR og Selfoss var hins vegar öllum frestað. Leikurinn á móti Selfossi, sem átti að fara fram um helgina en fer fram í kvöld, en það á enn eftir að finna tímasetningu fyrir hina frestuðu leikina.

Eyjamenn fögnuðu síðast sigri í Olís deildinni í leik á móti KA 27. nóvember eða fyrir 80 dögum síðan.

Fjölmargir leikir fóru fram eftir leik ÍBV 3. desember og fram að HM-frí og svo hafa auðvitað farið fram þrjár umferðir eftir að deildin fór aftur af stað.

Nú er svo komið að það hafa verið skoruð 1.301 mark í Olís deild karla síðan Eyjamaður skaut síðast á markið.

Dagur Arnarsson skoraði síðasta mark Eyjamanna í deildinni fyrir tveimur mánuðum og tólf dögum.

Öll liðin hafa spilað að minnsta kosti þrjá leiki á þessum tíma en Gróttumenn hafa spilað fimm deildarleiki síðan ÍBV spilaði síðast og Haukar, KA, Stjarnan, Afturelding, Fram, FH og Valur hafa öll spilað fjóra leiki.

  • Mörk liðanna í Olís-deild karla síðan að ÍBV spilaði síðast:
  • 142 mörk - Valur
  • 141 - Grótta
  • 133 - Haukar
  • 130 - FH
  • 125 - KA
  • 119 - Afturelding
  • 119 - Stjarnan
  • 117 - Fram
  • 98 - Hörður
  • 95 - Selfoss
  • 82 - ÍR
  • 0 - ÍBV
  • -
  • Bið félaga á milli leikja vegna HM og hátíða:
  • 74 dagar - ÍBV
  • 63 dagar - Hörður
  • 62 dagar - ÍR
  • 59 dagar - Afturelding
  • 58 dagar - Fram
  • 57 dagar - Haukar
  • 57 dagar - Selfoss
  • 56 dagar - KA
  • 55 dagar - Stjarnan
  • 53 dagar - Valur
  • 53 dagar - FH
  • 50 dagar - Grótta



Fleiri fréttir

Sjá meira


×