Handbolti

Logi Geirs segir að Einar Bragi sé í landsliðsklassa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Bragi Aðalsteinsson var með tíu mörk og tíu lögleg stopp í tveggja marka sigri á Fram.
Einar Bragi Aðalsteinsson var með tíu mörk og tíu lögleg stopp í tveggja marka sigri á Fram. Vísir/Hulda Margrét

Einar Bragi Aðalsteinsson átti frábæran leik þegar FH vann 28-26 sigur á Fram í Olís deild karla í handbolta um helgina. Seinni bylgjan fór yfir frammistöðu stráksins.

„Einar Bragi var með xG upp á 5,4 sem segir að hann hafi mögulega átt að skora í kringum fimm til sex mörk í leiknum. Hann skorar tíu mörk,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar.

Einar Bragi var skráður með hundrað prósent nýtingu hjá HB Statz eða tíu mörk úr tíu skotum. Það var ekki alveg rétt.

„Við fundum reyndar eitt klikk hjá honum, hann var ekki alveg tíu úr tíu heldur var með tíu mörk úr ellefu skotum. Hann skorar tíu mörk í þessum leik og er með fjórar stoðsendingar. Hann er líka með tíu lögleg stopp. Logi þú ert hrifinn af þessum strák,“ sagði Stefán Árni.

Einar Bragi er tvítugur og bankar nú á dyrnar hjá A-landsliðinu ef marka má sérfræðing Seinni bylgjunnar.

„Mér finnst þetta bara vera landsliðsklassi. Ég er búinn að sjá hann vaxa og er búinn að kalla margoft eftir þessu. Sjáið þetta. Hann er svo óhræddur, fer alltaf í allar árásir. Við erum að tala um að þetta er eiginlega fullkominn leikur hjá honum,“ sagði Logi Geirsson.

Hér fyrir neðan má sjá styrkleikaspjald Einars Brag og umræðu Seinni bylgjunnar um frammistöðu hans.

Klippa: Seinni bylgjan: Umfjöllun um Einar Braga hjá FH



Fleiri fréttir

Sjá meira


×