Skoðun

Vinnum öll saman að því að auka farsæld barna

Óskar Dýrmundur Ólafsson skrifar

Á dögunum skrifuðu lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Suðurmiðstöð og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti undir samstarfsyfirlýsingu um að vinna enn frekar saman til að stuðla að farsæld barna og ungmenna í viðkvæmri stöðu.

Með samstarfsyfirlýsingunni er þjónustuveitendum sem starfa með börnum og fjölskyldum þeirra gert að vinna saman í þverfaglega samstarfi. Hlutverk þeirra er að fylgjast með og greina vísbendingar um að þörfum barna sé ekki mætt á fullnægjandi hátt og bregðast þá við á viðeigandi hátt.

Í stefnumörkun Reykjavíkurborgar er skýrt kveðið á um aukið samstarf þjónustuveitenda sem er ætlað að skila börnum og unglingum aukinni farsæld. Í lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar er tekið í sama streng. Í aðgerðaáætlun stefnunnar er lögð áhersla á forvarnir til að bæta líðan barna og ungmenna, og mikilvægi samstarfs lykilaðila sem sinna þjónustu við þau. Sömu áherslur um samstarf og samráð er að finna í velferðarstefnu Reykjavíkurborgar.

Miðstöðvar Reykjavíkurborgar hafa til áratuga þróað samstarf í hverfum borgarinnar, þvert á stofnanir Reykjavíkurborgar, íbúum til hagsbóta. Síðustu 3 ár hafa velferðar- og skóla- og frístundasvið þróað verkefnið Betri borg fyrir börn þar sem stjórnendur þessara stofnana í miðstöðvunum deila vinnuaðstöðu, starfa saman í teymum og leggja allt kapp á að styðja börn í þeirra nærumhverfi, m.a. í skólum og frístundastarfi. Þess utan hefur byggst upp mikið samstarfsnet í hverfum borgarinnar með þátttöku íþróttafélaga, bókasafna, sundlauga og annarra sem sinna frístunda-, menningar og frístundastarfi fyrir börn.

Þessi samstarfsyfirlýsing byggir á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021. Þau skylda þá sem veita þjónustu til þess að efla eða tryggja farsæld barna og ungmenna, hvort sem hún er hluti af stjórnsýslu ríkis, sveitarfélags eða einkaaðila til að:

1. Fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra og meta þörf fyrir þjónustu.

2. Bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur.

3. Hafa samráð sín á milli með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna og foreldra.

Hér stíga yfirvöld fram með lög, stefnumörkun og aðgerðir til þess að undirstrika þetta í staðbundnu samhengi. Byggt er á ómetanlegri samstarfsreynslu kennara, þjálfara, stjórnenda, ráðgjafa, lögreglumanna, heilbrigðisstarfsfólks og annarra sem koma að stuðningi barna í nærsamfélagi þeirra. Samstarfsyfirlýsingin auðveldar við að styðja börn og fjölskyldur þeirra á heildrænan hátt. Öll getum við í þorpinu eða hverfinu okkar hjálpað til.

Höfundur er framkvæmdastjóri Suðurmiðstöðvar.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×