Handbolti

Þýski handboltinn: Gísli Þorgeir frábær og sigur hjá Arnóri Þór í Íslendingaslag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir átti frábæran leik fyrir Magdeburg í dag.
Gísli Þorgeir átti frábæran leik fyrir Magdeburg í dag. Vísir/Getty

Gísli Þorgeir Kristjánsson var allt í öllu í sóknarleik Magdeburg þegar liðið vann góðan sigur á Lemgo í þýska handboltanum. Þá voru þrír Íslendingar í eldlínunni í sannkölluðum Íslendingaslag.

Magdeburg er í harðri baráttu við topp þýsku úrvalsdeildarinnar og héldu í dag til Lemgo og mættu þar heimamönnum sem eru í neðri hluta deildarinnar.

Leikurinn í dag var jafn til að byrja með en í stöðunni 12-9 fyrir Magdeburg náðu gestirnir 7-1 áhlaupi og komust í góða forystu. Staðan í hálfleik var 21-15 fyrir gestina frá Magdeburg.

Þann mun náðu heimamenn aldrei að brúa. Þeir minnkuðu muninn mest niður í tvö mörk en komust ekki nær og Magdeburg fagnaði að lokum 34-28 sigri.

Gísli Þorgeir átti frábæran leik í dag. Hann var markahæstur hjá Magdeburg með átta mörk auk þess að gefa fjórar stoðsendingar.

Spenna í Íslendingaslag

Bergischer, lið Arnórs Þórs Gunnarssonar tók á móti Melsungen á heimavelli í dag en með Melsungen leika landsliðsmennirnir Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson.

Leikurinn var jafn lengst af í fyrri hálfleik en Bergischer skoraði fjögur af síðustu fimm mörkum fyrri hálfleiks og leiddi að honum loknum 13-10.

Elvar Örn var öflugur í tapi Melsungen gegn Bergischer.Vísir/Vilhelm

Bergischer hélt frumkvæðinu í síðari hálfleik. Munurinn var oftast nær 2-3 mörk en heimamenn náðu mest fimm marka forskoti í stöðunni 27-22. Þá skoraði Melsungen fjögur mörk í röð og munurinn skyndilega orðinn eitt mark.

Þeir komust hins vegar ekki nær. Bergischer vann að lokum eins marks sigur, lokatölur 28-27.

Arnór Þór skoraði eitt mark fyrir Bergischer líkt og Arnar Freyr gerði fyrir Melsungen. Elvar Örn Jónsson skoraði hins vegar fimm mörk fyrir gestina auk þess að gefa eina stoðsendingu.

Teitur Örn Einarsson kom lítið við sögu í góðum endurkomusigri Flensburg gegn Stuttgart. Heimamenn í Stuttgart komust mest fimm mörkum yfir í síðari hálfleiknum en Flensburg skoraði þrettán mörk gegn sex síðustu tuttugu mínúturnar og fögnuðu 32-30 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×