Umfjöllun og viðtöl: KA - Valur 32-36 | Valsmenn fengu það sem þeir vildu

Árni Gísli Magnússon skrifar
Stiven Tobar Valencia var markahæstur í liði Vals.
Stiven Tobar Valencia var markahæstur í liði Vals. Vísir/Vilhelm

KA og Valur áttust við í KA heimilinu nú í kvöld í forvitnilegum leik. Mikið var talað um leiktímann í aðdraganda leiksins þar sem Valsmenn vildu flýta leiknum sem að lokum varð raunin eftir mikið fjaðrafok.

KA hélt í við Valsmenn lengi vel en gestirnir sýndu hvers megnugir þeir eru og kláraðu leikinn fagmannlega með fjögurra marka sigri, 32-36.

Valur komst þremur mörkum yfir, 2-5, eftir sex mínútna leik en eftir það var mjög jafnt á með liðunum. KA liðið gaf ekkert eftir og hélt í við ógnarhraða Valsliðins og keyrðu hraða miðju hvað eftir annað.

Ólafur Gústafsson og Gauti Gunnarsson voru að spila mjög vel og skoruðu báðir 5 mörk í hálfleiknum. Valsmenn áttu þó ekki í miklum vandræðum að finna glufur í vörn heimamanna og keyrðu áfram sinn hraða leik.

Frá því í stöðunni 10-11 fyrir Val skiptust liðin nánast alltaf á að skora og endaði hálfleikurinn á að bæði lið höfðu skorað 17 mörk og því allt jafn þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimamenn komust yfir með því að skora fyrsta mark seinni hálfleiks en fóru illa af ráði sínu stuttu seinna þegar þeir fengu á sig tvær brottvísanir með 30 sekúndna millibili og þurftu að spila tveimur færri í eina og hálfa mínútu. Jónatan Magnússon, þjálfari KA, kaus að taka markmanninn ekki út af, heldur spila fjórir gegn sex. Leikmenn KA fóru illa með boltann og Valsmenn refsuðu hart og skoruðu þrjú mörk á þessum stutta tíma og komu sér fjórum mörkum yfir þegar 22 mínútur lifðu leiks.

Róðurinn var þungur eftir þetta og Valsmenn gengu á lagið og kláruðu verkefnið með góðum fjögurra marka sigri. Lokatölur 32-36.

Af hverju vann Valur?

KA liðið fór illa af ráðu sínu á kafla snemma í síðari hálfleik og eftir það sýndu Valsmenn styrk sinn og kláruðu leikinn vel. Breiddin í Valsliðinu skipar líka stóran sess þar sem tvær frábærir handboltamenn eru tiltækir í allar stöður.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Val var Stiven Tobar Valencia markahæstur með 8 mörk og 6 lögleg stopp. Á eftir honum voru þeir Benedikt Gunnar Óskarsson með 7 mörk og Tjörvi Týr Gíslason með 6 mörk.

Hjá KA mæddi mikið á Ólafi Gústafssyni í dag sem skoraði 9 mörk. Einar Rafn skoraði 8 mörk og Gauti Gunnarsson 6 mörk.

Hvað gekk illa?

Vörn og markvarsla hjá KA var ekki upp á marga fiska í dag.

Það sést best á því að Valur er með 29 lögleg stopp en KA aðeins 11.

Hvað gerist næst?

KA mætir Aftureldingu í 8-liða úrslitum Powerade-bikarnum í KA-heimilinu miðvikudaginn 19. febrúar. Það lið sem sigrar tekur þátt í Final 4 helginni.

Næsti deildarleikur KA er sunnudaginn 18. febrúar gegn ÍR í Skógarselinu kl. 16:00.

Valur fær spænska liðið TM Benidorm í heimsókn í Origo-höllina þriðjudaginn 14. febrúar kl. 19:45. Leikurinn er í Evrópukeppni félagsliða og er gríðarlega mikilvægur upp á áframhaldandi þátttöku Vals í keppninni.

Valur mætir svo Stjörnunni í TM-Höllinni föstudaginn 17. febrúar kl. 19:30 Næsti deildarleikur liðsins er gegn ÍR í Skógarselinu 24. febrúar.

„Ég nenni ekki einu sinni að tala um þetta, þetta er svo galið”

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var sáttur með sigur síns lið í erfiðum leik gegn KA fyrir norðan í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

„Flottur leikur held ég hjá báðum liðum. Bara góður kraftur í okkur og báðum liðum. Við vorum með undirtökin í leiknum fannst mér en það var erfitt að slíta þá frá okkur og þeir gera bara vel að koma sér oft aftur inn í leikinn bæði í fyrri og seinni hálfleik. Við héldum bara haus og heilt yfir spiluðum við bara fínan leik.”

KA menn héldu í við hraða Vals í fyrri hálfleik sem ekki mörg lið gera. Kom það Snorra á óvart?

„Nei alls ekki. KA gera það alveg og gera það vel og bara með flott lið til þess að gera það þannig nei nei alls ekki.” Mikið leikjaálag hefur verið á Valsliðinu sem var að spila erfiðan leik í Þýskalandi gegn Flensburg á mánudaginn og framundan er heimaleikur gegn Benidorm og 8-liða úrslit í bikar gegn Stjörnunni ásamt því auðvitað að vera spila í deildinni. Hvernig er staðan á hópnum í öllu þessu álagi?

„Bara allt í lagi. Ég veit svo sem ekki hvernig þessi leikur fór í menn, það verður bara að koma í ljós, en Róbert Aron ekki með og Tryggvi meiddist út í Flensburg. Ég bind vonir við að Magnús Óli verði með okkur á þriðjudaginn en ég er svo sem búinn að læra það í vetur að það er ágætt bara að slaka á í þessum efnum og vera ekkert að bíða og vona heldur bara taka því sem kemur og við mætum til leiks flottir á þriðjudaginn.”

Mikið var rætt og ritað fyrir leikinn um tímasetningu leikins þar sem Valur vildi flýta leiknum til að geta flogið. KA menn urðu ekki að þeirri ósk en svo varð að lokum að leiknum var flýtt um hálftíma vegna veðurskilyrða. Valsmenn þurftu þó að keyra norður. 

Björgvin Páll Gústafsson, markmaður Vals og landsliðsins, tjáði skoðun sína á þessu máli á Twitter í dag sem fór ekki vel í marga innan KA. Snorri var spurður út í þessa umræðu og var mjög svo stuttorður:

„Ég nenni ekki einu sinni að tala um þetta, þetta er svo galið”, sagði Snorri einfaldlega og hélt áleiðis.


Tengdar fréttir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira