Umfjöllun og viðtöl: Valur - Haukar 27-26 | Toppliðið þurfti að hafa fyrir hlutunum

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Valskonur unnu nauman sigur í kvöld.
Valskonur unnu nauman sigur í kvöld. vísir/hulda margrét

Topplið Vals þurfti að hafa fyrir hlutunum er liðið tók á móti Haukum í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld. Eftir jafnan og spennandi leik unnu Valskonur að lokum nauman eins marks sigur, 27-26.

Haukar byrjuðu mun betur, þær komu inn í leikinn af krafti og komust snemma í 1-4. Við það tók Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, leikhlé þar sem hann fór vel yfir málin með sínum leikmönnum. Ágúst hefur áður lent í því á þessu tímabili að þurfa að taka leikhlé mjög snemma eftir hæga byrjun hjá sínu liði. Þessi leikhlé hafa virkað vel fyrir hann.

Valskonur vöknuðu ekki alveg strax en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn þá komust þær meira og meira inn í leikinn. Það var högg fyrir Valsliðið að missa Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur af velli snemma leiks með rautt spjald og það tók þær tíma að jafna sig á því, en það tókst á endanum.

Það var tvíhöfði á Hlíðarenda þar sem Valur vann FH í Olís-deild karla fyrr í kvöld, áður en leikur Vals og Hauka hófst. Þar var sóknarleikurinn svo sannarlega í aðalhlutverki en í seinni leiknum var það varnarleikurinn sem átti sviðsljósið. Sóknarleikur beggja liða var stirður en spennan var mikil. Haukar leiddu með einu marki þegar gengið var til búningsklefa.

Það var mikið jafnræði með liðunum í byrjun seinni hálfleiks en svo sigur Haukarnir aðeins fram úr aftur. Elín Klara Þorkelsdóttir, líklega efnilegasti leikmaður landsins, setti liðið á bakið á sér og dró það áfram. Hún var algjörlega mögnuð og fór nánast allur sóknarleikur Hauka í gegnum hana.

Þegar hún var ekki inn á vellinum - sem var ekki oft - þá fór allt í baklás og mikilvægi hennar í Haukaliðinu er gríðarlegt. Erlendu leikmenn liðsins voru ekki að stíga upp þegar liðið þurfti á því að halda.

Valskonur tóku forystuna í fyrsta sinn í leiknum þegar um tíu mínútur voru eftir; þær héldu sér alltaf inn í leiknum og sigu svo fram úr í lokin. Haukarnir gáfust ekki upp og náðu að halda leiknum spennandi. Elín Klara minnkaði muninn í eitt mark með undirhandarskoti er tæp mínúta var eftir en Valur spilaði síðustu sókn sína skynsamlega og gáfu Haukum ekki tækifæri til að jafna.

Lokatölur 27-26 fyrir Val í háspennuleik og þær halda í toppsætið. Haukar, sem eru í fimmta sæti, geta verið súrar með að fá ekki að minnsta kosti stig úr þessum leik.

Af hverju vann Valur?

Í Valsliðinu eru sigurvegarar. Þær eru með reynsluna í því að vinna svona leiki þar sem spennan og stressið er mikið. Valur er með fleiri leikmenn í sínu liði sem voru tilbúnar að stíga upp þegar á því þurfti að halda á meðan Haukaliðið var rosalega mikið að treysta á Elínu Klöru.

Hverjar stóðu upp úr?

Líkt og áður segir þá var Elín Klara stórkostleg í Haukaliðinu og þeirra langbesti leikmaður.

Sara Sif Helgadóttir átti frábæra innkomu í Valsliðið eftir að hafa óvænt byrjað á bekknum og varði mikilvæg skot. Þá stigu Thea Imani Sturludóttir og Sara Dögg Hjaltadóttir upp í lokin fyrir Valsliðið.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn hjá báðum liðum var ekki sérstakur á löngum köflum og var nokkuð mikið um tapaða bolta að manni fannst.

Mariam Eradze átti ekki góðan leik í liði Vals og hjá Haukum voru Sara Odden og Natasja Hammer skelfilegar sóknarlega. Thelma Melsted Björgvinsdóttir fékk tvö dauðafæri sem hún átti að skora úr af línunni.

Hvað næst?

Valur fer á Selfoss næsta laugardag og ætti að taka þar frekar þægilegan sigur. Haukar fara á Akureyri og mæta KA/Þór sama dag og verður það eflaust hörkuleikur.

„Vorum stöngin út á meðan þær voru stöngin inn“

Ragnar Hermannsson, þjálfari Hauka.Vísir/Hulda Margrét

Ragnar Hermannsson, þjálfari Hauka, var auðvitað svekktur eftir tapið gegn Val en hann var jafnframt stoltur af sínu liði.

„Ég er rosalega vonsvikinn með úrslitin. Mér fannst við eiga meira skilið, en það er ekki spurt því. Ég er samt stoltur af liðinu. Það var ákveðinn fullorðinsbragur af þessu í fyrsta skipti í vetur. Við mættum þeim og vorum óhræddar við þær,“ sagði Ragnar eftir leikinn.

„Í seinni hálfleik vorum við stöngin út á meðan þær voru stöngin inn. Ég held að Thelma hafi átt að fá mark þarna einu sinni, ég held að hún hafi varið inn inn í markinu. Við fengum gott tækifæri til að vinna þennan leik.“

Ragnar talaði um það fyrir leikinn að hann vildi fá betri frammistöðu en í síðustu tveimur leikjum gegn Val og hann fékk það svo sannarlega.

„Þetta er það sem við höfum verið að glíma við í allan vetur, að kenna fólki að keppa. Það er mikið stökk að vera að keppa við svona rútíneruð og góð lið eftir að hafa verið að keppa í yngri flokkunum. Þetta er stórt stökk upp á við. Þetta er í fyrsta skipti sem við horfum ekki á þær og spilum frekar við þær. Það var skemmtilegt, þetta var skemmtilegur leikur.“

Ragnar var spurður út í Elínu Klöru sem hefur verið nefnd margoft í þessari umfjöllun. Hún átti stórkostlegan leik.

„Ég hafði áhyggjur fyrir keppnistímabilið – eftir alla athyglina í fyrra, allt hrósið og allt bullið sem er í gangi með yngri leikmennina hér heima – að hún myndi eitthvað dala en hún er bara í framför. Hún hefur bætt sig á mjög mörgum sviðum í vetur.“

Hversu langt nær hún á sínum ferli?

„Það er undir mjög mörgum þáttum komið. Ef hún heldur að æfa af þessari grimmd og ef eyrun virka svona vel áfram – ef hún heldur að bæta við sig vopnum – þá fer þessi stelpa fljótlega eitthvað annað en íslensku deildina.“

Ragnar var sammála því að hann gæti tekið margt jákvætt með sér úr þessum leik, eftir þessa frammistöðu gegn svona góðu liði.

„Ég tek eintóma jákvæða hluti út úr þessu nema stigin. Við erum að reyna að byggja upp lið og þetta var stórt skref í þá átt. Fólk er búið að sýna að það á erindi og núna er að fylgja því eftir,“ sagði Ragnar að lokum.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira