Aðalsteinn klárar tímabilið með Kadetten, en heldur næsta sumar til Þýskalands á nýjan leik þar sem hann þekkir vel til. Minden situr í næst neðsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar sem stendur.
„Ég er náttúrulega búinn að vera í frekar krefjandi störfum, bæði í HC Erlangen og svo núna aftur hjá Kadetten. Á öðruvísi forsendum reyndar,“ sagði Aðalsteinn í samtali við Ingva Þór Sæmundsson í gær.
„Núna síðastliðin þrjú ár hjá Kadetten hefur verið mikil reynsla og maður hefur lært mikið á þessum tíma. Við erum búnir að vera í Evrópukeppninni og erum að spila mjög ört. Við erum að spila tvo til þrjá leiki í viku þannig að álagið hefur verið gríðarlegt. En það er mikil reynsla fólgin í því að læra að stýra því álagi og undir þeirri árangurspressu sem er hérna hjá okkur.“
„Þannig að það hefur verið áhugavert, en mig var farið að langa aftur heim ef maður getur orðað það þannig. að komast aftur til Þýskalands og í umhverfi sem maður þekkir út og inn og farið að hlakka til að fara að þjálfa aftur,“ sagði Aðalsteinn, en viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.