Körfubolti

Skoðuðu kostu­legt at­vik í NBA: „Með því fyndnara sem maður hefur séð“

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James trúði ekki eigin augum þegar dómararnir dæmdu ekkert í lok venjulegs leiktíma.
LeBron James trúði ekki eigin augum þegar dómararnir dæmdu ekkert í lok venjulegs leiktíma. AP Photo/Michael Dwyer

NBA-sérfræðingarnir í Lögmálum leiksins skoða í þætti kvöldsins meðal annars það sem á gekk í lok venjulegs leiktíma leiks LA Lakers og Boston Celtics um helgina, þar sem slæm dómaramistök kostuðu Lakers líklega sigur.

Staðan var 105-105 þegar LeBron James óð að körfunni á síðustu sekúndunum en hann hitti ekki. Ekkert var heldur dæmt, þó að brotið væri á James, og Celtics unnu svo leikinn í framlengingu.

„Þarna slær Jayson Tatum augljóslega í höndina á LeBron James. Strax eftir leikinn báðust dómararnir bara afsökunar,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi Lögmála leiksins.

„LeBron James klikkar ekki á svona lay-upi nema að hann sé bara hakkaður, sem var algjörlega raunin þarna,“ sagði Rangæingurinn Tómas Steindórsson.

Klippa: Meiriháttar mistök rædd í Lögmálum leiksins

James fórnaði höndum og trúði gjörsamlega ekki mistökum dómaranna. Ekki frekar en flestir aðrir viðstaddir. Enginn gekk þó lengra en Patrick Beverley, liðsfélagi James, sem fékk myndavél frá ljósmyndara á staðnum og fór með hana til eins af dómurunum til að sýna honum mistökin. Fyrir það fékk hann tæknivillu.

„Þessi tæknivilla er alveg þess virði. Nú finnst mér Patrick Beverley oft bara óþolandi smáhundur en þetta er mjög gott,“ sagði Hólmvíkingurinn Sigurður Orri Kristjánsson og Kjartan tók undir:

„Hann fór úr því að vera óþolandi í að vera bara frekar fyndinn gæi. Þetta er með því fyndnara sem maður hefur séð.“

Þáttur kvöldsins af Lögmálum leiksins hefst klukkan 19:55 á Stöð 2 Sport 2.


Lögmál leiksins er vikulegur þáttur um NBA-deildina sem er sýndur á mánudögum á Stöð 2 Sport 2. NBA-deildin er hluti af Sport Erlent sem kostar kr. 3.990 á mánuði. Smelltu hér til að kaupa áskrift.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×