Handbolti

Valur aftur á toppinn eftir sigur á Akur­eyri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Thea Imani var markahæst í liði Vals í dag.
Thea Imani var markahæst í liði Vals í dag. Vísir/Hulda Margrét

Valur gerði góða ferð til Akureyrar í Olís deild kvenna i handbolta þar sem liðið mætti KA/Þór. Leiknum lauk með þriggja marka sigri Vals, lokatölur 20-23.

Fyrr í dag hafði ÍBV náð toppsæti Olís deildarinnar með sigri á Fram. Valur varð því að sigra á Akureyri til að komast á toppinn á ný. Leikurinn var mjög svo jafn en þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik leiddu Valskonur með einu marki, staðan þá 12-13.

Eitthvað hefur verið sagt í búningsklefa Vals en liðið skoraði þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiksins og því komið með fjögurra marka forystu. Heimaliðið náði mest að minnka muninn niður í tvö mörk en nær komst það ekki og þegar flautað var til leiksloka var munurinn aftur kominn upp í þrjú mörk, lokatölur 20-23 á Akureyri.

Thea Imani Sturludóttir var markahæst í liði Vals með 8 mörk. Þar á eftir kom Mariam Eradze með 6 mörk. Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði 8 skot í markinu og var með 29 prósent hlutfallsmarkvörslu. Hjá KA/Þór var Ida Margrethe Rasmussen markahæst með 7 mörk á meðan Matea Lonac varði 12 skot í markinu og var með 34 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Valur komst með sigrinum aftur á topp Olís deildarinnar með 22 stig, líkt og ÍBV þegar 13 umferðir eru búnar. KA/Þór er í 5. sæti með 10 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×