Körfubolti

„Finnst eins og það sé búið að eyða bestu árum Óla Óla í al­gjöra meðal­mennsku“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ólafur Ólafsson á ferðinni.
Ólafur Ólafsson á ferðinni. Vísir/Vilhelm

Frammistaða Ólafs Ólafssonar í leik Grindavíkur og Keflavíkur í Subway deild karla var til umræðu í síðasta þætti Körfuboltakvölds. Farið var yfir hversu mikið mæðir á Ólafi þegar Grindavík spilar og hvernig hans bestu árum hefur í raun verið sóað í meðalmennsku eftir að Grindavík komst í úrslit árið 2017.

„Óli Óla átti flottan fyrri hálfleik en kíkjum á hvað hann gerði í seinni hálfleik, því hann var nánast með þessar tölur í fyrri hálfleik. Hér sjáum við að hann sprakk, getum við sagt. Það hvílir ofboðslega mikið á hans herðum. Hann þarf að skapa, hann þarf að passa upp á allar róteringar í vörninni séu réttar, hann er að dekka hávaxnari menn og það er rosalega mikið sem mæðir á honum,“ sagði Kjartan Atli Kjartanssonm þáttastjórnandi um frammistöðu Óla Óla gegn Keflavík.

Tölfræði Óla Óla gegn Keflavík.Körfuboltakvöld

„Nú eru Grindvíkingar að næla í Zoran Vrkić, hann er að koma í gult. Hverju bætir hann við og hversu mikið léttir hann af herðum Óla,“ spurði Kjartan Atli svo Brynjar Þór Björnsson, sérfræðing þáttarins.

„Það er svo erfitt að segja því Grindavíkurliðið er búið að vera síðan 2017 í tómu veseni með útlendingamál og leikmannamál. Alltaf að skipta um, enginn festa og mér finnst eins og það sé búið að eyða bestu árum Óla Óla í algjöra meðalmennsku þegar þeir gátu farið á eftir Mike Craion, borgað honum alvöru pening. Í staðinn fyrir „Þessi gæi er geggjaður, fáum hann“ þá eru þeir alltaf að taka einhverjar áhættur,“ sagði Brynjar Þór og hélt áfram.

„Zoran er góður leikmaður en ég veit ekki hvort hann sé endilega að fara breyta þessu Grindavíkur liði. Hann léttir á liðinu, léttir á Óla en mér finnst of mikið af hrókeringum til að hann sé eitthvað svar við þeirra vandamálum,“ bætti Brynjar Þór við.

„Þeir eiga eftir að ná sér í annan Bosman-leikmann. Hann er væntanlega ekki Bosman-leikamaðurinn sem þeir ætla sér að ná í og festa liðið svona,“ skaut Sævar Sævarsson inn í áður en Kjartan Atli benti á að félagið hefði fjóra daga áður en félagaskiptaglugginn lokar.

Hér að neðan má sjá þá Kjartan Atla, Brynjar Þór og Sævar ræða Grindavík enn frekar. Liðið situr sem stendur í 7. sæti Subway deildar karla með sjö sigra og sjö töp í 14 leikjum til þessa. 

Klippa: Körfuboltakvöld: Finnst eins og það sé búið að eyða bestu árum Óla Óla í al­gjöra meðal­mennsku

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×