Heimakonur í Val byrjuðu af miklum krafti og skoruðu nánast að vild. Liðið náði fljótt fimm marka forskoti og HK-ingar sáu í raun aldrei til sólar og Valur fór með átta marka forskot inn í hálfleikinn, staðan 22-14.
Svipaða sögu er að segja af síðari hálfleiknum þar sem Valskonur höfðu öll völd á leiknum. Það var í raun formsatriði fyrir liðið að klára leikinn, sem það svo gerði með 16 marka mun, en lokatölur urðu 41-25.
Mariam Eradze, Elín Rósa Magnúsdóttir og Sara Dögg Hjaltadóttir voru markahæstar í liði Vals með sjö mörk hver, líkt og Embla Steindórsdóttir sem var atkvæðamest í liði HK.
Valskonur tróna enn á toppi Olís-deildarinnar með 22 stig eftir 13 leiki, en HK-ingar sitja sem fastast á botninum með aðeins tvö stig.