Um­fjöllun og við­töl: Haukar - Stjarnan 25-31 | Gestirnir unnu granna­slaginn á Ás­­völlum

Dagur Lárusson skrifar
Helena Rut var frábær í liði gestanna í dag.
Helena Rut var frábær í liði gestanna í dag. Vísir/Hulda Margrét

Eftir að hafa náð í aðeins eitt stig í síðustu tveimur leikjum vann Stjarnan góðan sigur á nágrönnum sínum frá Hafnafirði. Lokatölur á Ásvöllum 25-31 og Stjarnan fór með stigin tvö heim í Garðabæ.

Það voru Haukastúlkur sem byrjuðu leikinn betur og voru með forystuna fyrstu tíu mínútur leiksins. Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, tók leikhlé um það leyti og lét sínar stelpur heyra það. Eftir það leikhlé vaknaði gestaliðið og tók smátt og smátt yfir leikinn.

Helena Rut fór fyrir sínu eins og svo oft áður og skoraði sjö mörk í fyrri hálfleiknum á meðan Elín Klara lék óaðfinnalega fyrir Hauka og skoraði einnig sjö mörk. Staðan í hálfleik var 16-19.

Í seinni hálfleiknum var það sama upp á teningnum og undir lok fyrri hálfleiksins en þá gekk Stjarnan á lagið og forysta liðsins varð meiri og meiri. Það sem Stjarnan gerði einkar vel í síðari hálfleiknum var að loka vel á einn öflugasta leikmann Haukaliðsins, Elínu Klöru, en hún skoraði aðeins eitt mark í síðari hálfleiknum á meðan hún skoraði sjö mörk í fyrri.

Lokatölur leiksins voru 25-31 og Stjarnan því komin með nítján stig í þriðja sæti deildarinnar á meðan Haukar eru enn með átta stig í tíunda sætinu.

Af hverju vann Stjarnan?

Það eru meiri gæði í Stjörnuliðinu heilt yfir en það sem Stjarnan gerði vel í síðari hálfleiknum var að loka á Elínu Klöru sem stýrir sóknarleik Hauka og ber hann uppi og um leið og það gerðist var ekki spurning um það hvort liðið myndi vinna.

Hverjir stóðu uppúr?

Lena Margrét var frábær í liði Stjörnunnar en hún skoraði níu mörk og var markahæst í leiknum en það var Darija í marki Stjörnunnar sem stal senunni en hún varði nítján skot.

Hvað fór illa?

Fyrstu fjórtán mínúturnar af síðari hálfleiknum skoraði Haukaliðið aðeins þrjú mörk. Það segir allt sem segja þarf.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Stjörnunnar er á laugardaginn eftir viku gegn Selfossi og Haukar mæta HK þann sama dag.

Löguðum varnarleikinn í seinni

Hrannar Guðmundsson, þjálfair Stjörnunnar.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var bara mjög flott, sóknarleikurinn stórkostlegur í fyrri hálfleik og varnarleikurinn í seinni hálfleik,“ byrjaði Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, að segja eftir leik.

„Við löguðum varnarleikinn í seinni hálfleiknum. Við þurftum að þétta bakverðina, þær voru að opna okkur mikið þar og við vorum of flatar. Svo að sama skapi þurftum við að koma okkur fyrr til baka og við löguðum þetta, til dæmis um það er að Elín Klara var með sjö mörk í fyrri hálfleik en endaði síðan leikinn með átta mörk,“ hélt Hrannar áfram.

Hrannar tók leikhlé snemma leiks þegar liðið hans virtist ekki vera með á nótunum.

„Við þurfum einfaldlega að byrja leikinn og þarna vorum við bara ekki byrjaðar sem er nákvæmlega það sama og við gerðum gegn ÍBV nema þar vorum við of sein að grípa inn í,“ endaði Hrannar Guðmundsson á að segja eftir leik.

Klikkum á of mikið af dauðafærum

Ragnar Hermannsson, þjálfari Hauka.Vísir/Hulda Margrét

„Ég er hundóánægður með það að tapa en ég held að ég verði bara að fara í uppsprettuna,“ byrjaði Ragnar Hermannsson, þjálfari Hauka, að segja eftir leik.

„Ég segi bara eins og Guðmundur landsliðsþjálfari sagði eftir leikinn gegn Svíum þegar hann sagði að þegar þú klikkar á tíu til fimmtán dauðafærum sem liðið þitt er búið að skapa með góðum leik að þá er erfitt að vinna,“ hélt Ragnar áfram.

Ragnar vill þó meina að staðan gefi rétta mynd á því hvernig leikurinn spilaðist.

„Jú ég verð þó að viðurkenna það að staðan gefur rétta mynd. Svona eru þessir leikir yfirleitt hjá okkur, við erum alltaf með í baráttunni í þeim upp að vissu marki. En svo erum við of oft að klikka á dauðafærum og sérstaklega í fyrri hálfleik hengdu sumar stelpur haus þegar þær gerðu það.“

Ragnar kallar eftir því hjá sínu liði að það séu fleiri stelpur sem taki af skarið.

„Ég vil að stelpurnar taki ekki bara þátt í leiknum heldur reyni að hafa áhrif á hann og taka af skarið. Það gerðist til dæmis einu sinni í leiknum þar sem markvörður okkar ver en enginn af okkar leikmönnum er tilbúinn að taka frákastið og þær skora. Þetta þurfum við að bæta,“ endaði Ragnar á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira