Um­fjöllun, við­töl og myndir: Fram - KA/Þór 30-24 | Ís­lands­meistararnir stöðvuðu sigur­göngu norðan­kvenna

Kári Mímisson skrifar
Það var hart barist í dag.
Það var hart barist í dag. Vísir/Hulda Margrét

Fram lagði KA/Þór með sex mörkum 30 - 24 á heimavelli í Olís-deild kvenna í dag. Sigurinn var afar sannfærandi hjá Fram sem hefur ekki tapað í síðustu fimm leikjum og líta út fyrir að vera til alls líklegar eins og staðan er núna.

Eftir að hafa lent 1-0 undir skoraði Fram næstu sex mörkin og útlitið gott fyrir heimakonur sem litu vægast sagt vel út á upphafs mínútunum, bæði sóknarlega og varnarlega. Hafdís Renötudóttir í marki Fram hélt uppteknum hætti frá því í síðustu leikjum og varði mjög vel í byrjun leiks. 

Fram lék einkar vel í dag.Vísir/Hulda Margrét

Sóknarlega var hraðinn mikill hjá Fram og allt gekk upp hjá þeim til að byrja með þar gegn bitlausri vörn norðanstúlkna. Hildur Lilja Jónsdóttir minnkaði muninn í 7 mörk með marki beint úr aukakasti í síðustu sókn KA/Þórs í fyrri hálfleik. Glæsilegt mark. Staðan 18-11 fyrir heimakonur í hálfleik.

Fram hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik en í stöðunni 22-14 fyrir Fram tók KA/Þór leikhlé og skoraði næstu 3 mörk eftir það. Eitthvað hafa þau Andri Snær og Arna Valgerður sagt við sínar konur því eftir þetta leikhlé kom mjög góður kafli hjá KA/Þór sem minnkaði muninn í 4 mörk um miðbik seinni hálfleiks en komst þó ekki lengra. Lokatölur í Úlfarsárdalnum 30 – 24 fyrir Fram.

Sigrinum fagnað.Vísir/Hulda Margrét

Markahæst í liði Fram var línumaðurinn knái Steinunn Björnsdóttir með 6 mörk og þar á eftir komu þær Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir með 5 mörk. Hjá gestunum var það Rut Jónsdóttir sem var atkvæðamest með 7 mörk.

Eins og áður sagði átti Hafdís Renötudóttir afbragðsleik í marki Fram og varði 20 bolta [45 prósent]. Hjá gestunum spilaði Matea Lonac allan leikinn og varði 12 bolta [29 prósent].

Af hverju vann Fram?

Fram keyrði yfir KA/Þór á fyrstu mínútunum sem sáu ekki til sólar á tímabili. Fyrstu 15 mínúturnar voru frábærar hjá heimakonum sem skoruðu afar einföld mörk og náðu góðri forystu sem þær létu ekki af hendi það sem lifði leiks.

Fagnað meira.Vísir/Hulda Margrét

Hverjar stóðu upp úr?

Hafdís Renötudóttir var frábær í búrinu hjá Fram eins og hún hefur verið í undanförnum leikjum. Á tímabili virtist markið vera minna með hana í því. Steinunn Björnsdóttir átti góðan dag bæði í vörn og sókn.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur norðanstúlkna var bara ekki ásættanlegur í fyrri hálfleik. Lítið við Mateu að sakast sem varði ekki mikið í fyrri hálfleik, vörnin var eins og gatasigti fyrir framan hana á tímabili og Framstúlkur gengu á lagið.

Hvað gerist næst?

Bæði lið leika næst laugardaginn 28. janúar og mæta þá toppliðunum. Fram fer til Vestmannaeyja á meðan KA/Þór fær Valsstúlkur í heimsókn. Með sigrinum ná Fram Stjörnunni sem eiga þó leik til góða seinna í dag gegn Haukum. KA/Þór situr sem fyrri í 5. sæti deildarinnar.

Vonsvikin með frammistöðuna í fyrri hálfleik

Þjálfarateymi Þórs/KA fer yfir stöðu mála.Vísir/Hulda Margrét

Það mátti augljóslega sjá svekkelsi hjá Örnu Valgerði Erlingsdóttur, aðstoðarþjálfara KA/Þór eftir leikinn. 

„Við erum bara vonsvikin með okkar frammistöðu, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það er svona það sem situr eftir leikinn. Við vissum það fyrir leikinn að þær myndu keyra rosalega mikið á okkur og ef við kæmumst í vörnina þá væri þetta leikur en þarna í fyrri hálfleik þá bara komumst við ekki í vörn og þær slátruðu okkur í hraðaupphlaupum. Við náum svo að gera betur í seinni hálfleik og spiluðum skynsamari sóknir líka.“

Í fyrsta lagi erum við ekki með titil að verja

Stefán á hliðarlínunni í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Stefán Arnarsson var að vonum sáttur með sigurinn eftir leik og stigin tvö. En var Stefán aldrei stressaður þegar norðanstúlkur byrjuðu að minnka muninn um miðbik seinni hálfleiks?

„Nei, nei, ég held að það hafi farið minnst niður í þrjú mörk og við skoruðum svo strax eftir það úr hraðri miðju. Heilt yfir spiluðum við þennan leik mjög vel en á kafla í seinni hálfleik vorum við að tapa boltanum alltof mikið, gefa þeim mörk og það var ástæðan fyrir því að þær náðu að minnka muninn en ég held að þetta hafi verið sanngjarn sigur.”

Þegar Stefán er spurður um framhaldið voru svörin skýr hvað varðar að verja titilinn sem Framstúlkur eiga.

„Í fyrsta lagi erum við ekki með titil að verja. Við eigum titilinn sem við unnum í fyrra og það tekur hann enginn frá okkur. Ég hef alltaf viljað vinna deildarmeistara titilinn, mér finnst það frábær titill en við erum ekki þar. Við erum bara að bæta okkur og vera klár þegar úrslitakeppnin hefst og það er markmiðið hjá okkur núna.”

Sátt með stigin tvö

Hafdís átti fínan leik eins og svo oft áður.Vísir/Hulda Margrét

„Ég er bara sátt með stigin tvö. Við vorum alveg með það á hreinu að við ætluðum að sækja tvö stig sem við gerðum og ég er mjög sátt við það.“ Sagði maður leiksins Hafdís Renötudóttir strax eftir leik.

Spurð að því hversu langt þær væru að horfa svona miða við þetta góða gengi sem þær væru á var svarið einfalt.

„Við erum bara klárlega í stigasöfnun akkúrat núna og það er bara markmið númer eitt, tvö og þrjú að vera í góðu standi, spila vel og hafa góðan móral.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira