Körfubolti

Allt Stjörnugalið í körfunni: „Ekkert sem bannar þetta“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, hefur staðið í ströngu á leikmannamarkaðnum á nýju ári.
Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, hefur staðið í ströngu á leikmannamarkaðnum á nýju ári. Samsett/Vísir

KR greindi frá því í dag að Dagur Kár Jónsson hefði yfirgefið liðið til að ganga í raðir Stjörnunnar. Um er að ræða önnur tveggja félagsskipta til liðsins sem hafa verið í deiglunni í vikunni.

Skipti Dags Kár hafa vakið töluverða athygli en hann er fyrirliði KR-liðsins sem hefur gengið bölvanlega í vetur og situr á botni Subway-deildarinnar með aðeins tvö stig.

„Við spiluðum við KR-ingana milli jóla og nýárs og þá var hann ekki með. Þá einmitt hringdu einhverjir blaðamenn og spurðu hvort hann væri að koma í Stjörnuna. Ég hringdi þá í formann KR daginn eftir og spurði hvað væri málið og hvort hann væri að fara,“ segir Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, um skiptin.

Samkvæmt heimildum Vísis klikkuðu KR-ingar á því að skrá samning Dags hjá KKÍ og þar af leiðandi hafi Stjarnan getað fengið hann frítt frá félaginu. Heyrst hefur af ósætti KR-inga vegna málsins en Hilmar segir það ekki svo. Samkomulag hafi náðst í bróðerni á milli félaganna tveggja um skiptin.

„Hann var þá búinn að biðja um að losna undan samningi við KR og í framhaldinu bað ég um leyfi til að fá að tala við hann. Þá náðum við samkomulagi við KR um félagsskipti. Þannig að það var bara í góðu samkomulagi milli félaganna,“

„En ég veit svo sem ekkert frumkvæðið að því að hann hætti í KR, það snýr ekki að okkur. Hann vill bara losna þaðan og hver svo sem sú ástæða er þá báðum við um leyfi, fáum það leyfi, og náum samkomulagi,“ segir Hilmar.

Ekki hefur náðst í Ellert Arnarson, formann körfuknattleiksdeildar KR, vegna málsins.

Gilbert kemur í bikarleikina og fer svo aftur

Robert Turner III er stigahæsti leikmaður Stjörnunnar í Subway-deild karla í vetur. Hann yfirgaf félagið skömmu fyrir áramót og skildi því eftir stórt skarð í leikmannahópi Stjörnunnar sem er á leið í úrslitaviku bikarkeppninnar í næstu viku.

Karfan.is greindi frá því í vikunni að Stjarnan hefði náð samkomulagi við Hrunamenn um að fá þeirra bandaríska leikmann, Ahmad Gilbert, á skammtímasamningi yfir bikarvikuna. Gilbert muni spila leik Hrunamanna við Skallagrím annað kvöld en skipta svo yfir til Stjörnunnar og spila með þeim undanúrslitaleik bikarsins við Keflavík á miðvikudaginn næsta, með möguleika á úrslitaleiknum þar næstu helgi, komist Stjarnan þangað.

Robert Turner yfirgaf Stjörnuna með skömmum fyrirvara um áramótin.Vísir/Bára

Hann muni svo snúa aftur til Hrunamanna að því loknu. Samkvæmt heimildum Vísis hefur Gilbert þegar æft með Stjörnunni þrátt fyrir að vera samningsbundinn Hrunamönnum og Hilmar staðfestir að skiptin verði að veruleika.

„Það stendur til. Það kom mjög óvænt upp um jólin að við fengum tilboð í Rob [Robert Turner III] og þá kom þessi hugmynd upp að leysa þetta til skemmri tíma á meðan við værum að leita að eftirmanni Robs,“

Aðspurður hvort það standi til að samningurinn sé bara til skamms tíma segir Hilmar það vera svo.

„Já, það er raunverulega planið. Það kom mér nú eiginlega á óvart að þetta væri hægt en það er ekkert sem bannar þetta svo við ákváðum að fara þessa leið og Hrunamenn voru bara mjög jákvæðir fyrir því og við gengum frá samningum.“

Stjarnan greiðir kostnaðinn og atvinnuleyfið ekki vandamál

Borið hefur á því í umræðu um skipti Gilberts síðustu daga að Stjarnan þurfi að greiða hátt í 175 þúsund krónur fyrir félagsskipti hans. Svo er hins vegar ekki, slíkar fjárhæðir þarf að greiða þegar leikmaður er skráður til leiks í nýju landi, en ekki þegar hann kemur frá öðru íslensku félagsliði.

„Það eru bara einhverjar 13.500 krónur þegar leikmaður er bæði með atvinnuleyfi og leikheimild,“ segir Hilmar, sem segir jafnframt að Stjarnan muni þá taka á sig að greiða fyrir bæði leikmannaskipti, til Stjörnunnar, og svo aftur til Hrunamanna eftir bikarhelgina. Sá kostnaður mun því nema 27 þúsund krónum auk launakostnaðar Gilberts á meðan hann er á mála hjá félaginu.

Ahmad Gilbert fer á skammtímasamningi til Stjörnunnar.Sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Efasemdarraddir hafa vaknað vegna atvinnuleyfismála Gilberts en borið hefur á því í samfélagsumræðunni að Stjarnan þurfi að sækja um nýtt atvinnuleyfi fyrir Gilbert, en slíkt ferli getur reynst tímafrekt. Tíminn er ekki með Stjörnunni í liði þegar um félagsskipti til svo skamms tíma er að ræða. Hilmar segir þær fullyrðingar aftur á móti ekki á rökum reistar.

„Þegar þú færð atvinnuleyfi á Íslandi þá færðu atvinnuleyfi tengt ákveðnum vinnuveitenda. Þú getur svo fengið atvinnuleyfi til annarra verkefna, tímabundið eða til lengri tíma,“

„Það er bara mjög skýrt í reglunum. Það var þannig til að mynda með Dani [Danielle Rodriguez] þegar hún hélt áfram að þjálfa hjá okkur þegar hún spilaði með KR,“

„Þú sendir bara inn eina umsókn og færð svar til baka. Þetta er mjög einfalt,“ segir Hilmar sem staðfestir jafnframt að sú pappírsvinna liggi fyrir og því muni atvinnuleyfismál ekki flækjast fyrir því að Gilbert leiki með Stjörnunni gegn Keflavík í undanúrslitunum á miðvikudaginn næsta.

Gefur lítið fyrir gagnrýnina

Það hefur sætt gagnrýni að Stjarnan sé með þessu að nýta sér galla í regluverkinu, líkt og Hilmar nefnir að ofan þá kom það honum í opna skjöldu að Stjarnan hefði möguleika á því að leysa málin með þessum hætti. Hann gefur þó lítið fyrir gagnrýnina.

Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, ásamt Justin Shouse, fyrrum leikmanni liðsins.Vísir/Bára

„Ég gef ekkert fyrir það. Það verður hver að eiga það fyrir sig. Það er alveg þekkt að menn komi á láni til skamms tíma þegar menn meiðast eða slíkt. Það hafa verið svona leikmenn í sögunni,“

„Erlendir leikmenn leika stórt hlutverk í íslenskum körfubolta og það er náttúrulega erfitt að fara í svona verkefni án okkar besta leikmanns, sem var Rob. Í staðinn fyrir að reyna að fá einhvern annan í flýtimeðferð þá ákváðum við að leysa þetta svona,“

„Ef einhverjir hafa skoðun á því þá sef ég alveg rólegur yfir því,“ segir Hilmar.

Stjarnan mætir Val í stórleik í Subway-deild karla í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:15 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

Kjartan Atli Kjartansson og félagar í Körfuboltakvöldi munu svo gera alla fjóra leiki kvöldsins upp og taka málefni Stjörnunnar fyrir.


Tengdar fréttir

Stjarnan sækir Svía til Belgíu

Stjarnan hefur samið við sænska framherjann William Gutenius um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í Subway-deild karla í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×