Körfubolti

Enginn skorað meira í NBA deildinni í sautján ár: 71 stigs leikur hjá „Spida“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donovan Mitchell (45) fagnar með miðherjanum Jarrett Allen (31) eftir sigurinn í nótt.
Donovan Mitchell (45) fagnar með miðherjanum Jarrett Allen (31) eftir sigurinn í nótt. AP/Ron Schwane

Donovan Mitchell fór heldur betur á kostum með Cleveland Cavaliers á móti Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Mitchell skoraði 71 stig í leiknum sem er nýtt félagsmet og það mesta sem leikmaður hefur skorað í NBA-deildinni í einum leik síðan goðsögnin Kobe Bryant skoraði 81 stig fyrir Los Angeles Lakers á móti Toronto 22. janúar 2006.

Cleveland þurfti líka á öllum þessum stigum að halda því Cavaliers menn lentu 21 stigi undir í leiknum en komu til baka og unnu leikinn á endanum 145-134 í framlengingu.

Mitchell, sem er kallaður Spida, kom leiknum í framlengingu með sirkusskoti þremur sekúndum fyrir leikslok og skoraði síðan þrettán stig í framlengingunni.

Það er ekki eins og Mitchell hafi bara verið að skora því hann var einnig með ellefu stoðsendingar á liðsfélaga sína í leiknum. Hann hitti úr 22 af 34 skotum utan af velli og 20 af 25 vítum. 7 af 15 þriggja stiga skotum hans rötuðu rétta leið.

Wilt Chamberlain á stigametið en hann skoraði 100 stig fyrir Philadelphia á móti New York 2. mars 1962 en sá leikur var spilaður í bænum Hershey í Pennsylvaniu.

Mitchell varð aðeins sjöundi leikmaðurinn í sögu NBA til að komast í sjötíu stiga klúbbinn. Chamberlain náði þessu sex sinnum en hinir eru Kobe Bryant, David Thompson, Elgin Baylor, David Robinson og Devin Booker.

Það voru fleiri leikmenn að skora mikið í nótt. LeBron James fór yfir fjörutíu stig annan leikinn í röð þegar hann skoraði 43 stig þegar Los Angeles Lakers vann 121-115 sigur á Charlotte Hornets. Eftir leikinn en James fimm hundruð stigum frá stigametinu.

DeMar DeRozan skoraði 44 stig fyrir Bulls liðið á móti Cavs, Joel Embiid var með 42 stig í sigri Philadelphia 76ers á New Orleans Pelicans og þá var Klay Thompson með 54 stig þegar Golden State Warriors vann 143-141 sigur í framlengingu á móti Atlanta Hawks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×