Handbolti

Aron Pálmarsson kemur heim með þrjátíu stóra titla á ferilskránni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson byrjaði að vinna titla í Kiel og hefur haldið uppteknum hætti síðan. Hér lyftir hann þýska meistaraskildinum.
Aron Pálmarsson byrjaði að vinna titla í Kiel og hefur haldið uppteknum hætti síðan. Hér lyftir hann þýska meistaraskildinum. Getty/Oliver Hardt

Aron Pálmarsson er sigursælasti handboltamaður Íslands á erlendri grundu. Nú hefur hann ákveðið að snúa aftur heim til Íslands eftir mögnuð fjórtán ár í atvinnumennsku í bestu deildum heims.

Aron yfirgaf FH árið 2009 og samdi við þýska stórliðið Kiel. Síðan hefur hann spilað með stórliðum og nú síðast með Aalborg Håndbold í Danmörku.

Aron náði því að vinna stóran titil á þrettán fyrstu tímabilum sínum í atvinnumennsku og án enn möguleika á að bæta við stórum titli við á þessu tímabili.

Aron hefur alls unnið þrjátíu stóra titla á atvinnumannaferlinum. Hann hefur ellefu sinnum orðið landsmeistari, tíu sinnum bikarmeistari, fjórum sinnum deildabikarmeistari, þrisvar sinnum unnið Meistaradeildina og tvisvar orðið heimsmeistari félagsliða.

Aron varð landsmeistari með sínu félagi tíu tímabil í röð frá 2012 til 2021 sem er magnað afrek en á þessum tíma spilaði hann í þremur löndum, Þýskalandi, Ungverjalandi og á Spáni.

Þýskaland: Aron spilaði sex tímabil með þýska liðinu Kiel frá 2009 til 2015. Á þeim tíma varð hann fimm sinnum þýskur meistari, þrisvar sinnum bikarmeistari og vann Meistaradeildina tvisvar sinnum.

Ungverjaland: Aron spilaði tvö tímabil með ungverska liðinu KC Veszprém frá 2015 til 2017. Á þeim tíma varð hann tvisvar sinnum ungverskur meistari og tvisvar sinnum bikarmeistari.

Spánn: Aron spilaði fjögur tímabil með spænska liðinu Barcelona frá 2017 til 2021. Á þeim tíma varð hann fjórum sinnum spænskur meistari, fjórum sinnum bikarmeistari, fjórum sinnum deildabikarmeistari, tvisvar sinnum heimsmeistari félagsliða og vann Meistaradeildina einu sinni.

Danmörk: Síðustu tvö tímabil hefur Aron síðan spilað með danska félaginu Álaborg og hann varð bikarmeistari á fyrsta tímabilinu. Álaborg datt út úr bikarnum í gær og ver því ekki titilinn þar en getur unnið danska meistaratitilinn í vor. Takist það kveður Aron atvinnumennskuna með því að vinna stóran titil á hverju einasta tímabili í fjórtán ár í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×