Skoðun

Sýndu mér fjárlögin

Þórarinn Ingi Pétursson skrifar

Í dag voru fjárlög fyrir árið 2023 samþykkt á Alþingi. Í kjölfar þeirrar afgreiðslu minnist ég þess sem formaður Samfylkingarinnar sagði fyrr í þessum mánuði:

„Sýndu mér bara fjárlögin þín og ég skal segja þér hvað skiptir þig máli.“

Nú hefur ríkisstjórnin sýnt spilin með samþykkt fjárlaganna, og þau gefa skýra mynd á því hvert við stefnum. Fingraför Framsóknar sjást um öll þessi fjárlög þar sem ábyrg og skynsöm fjárhagsstjórnun mætir fjárfestingu í fólki, velferð og heilbrigði.

Endurreisn heilbrigðiskerfisins

Heilbrigðiskerfið hefur þurft að þola þung högg síðastliðin ár. Þá sérstaklega í kjölfar heimfaraldurs kórónaveirunnar. Einnig hefur það legið fyrir þörf er á breytingum og nýjum áherslum svo hægt er að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar.

Vegna þessa hefur ríkisstjórnin hækkað framlög til heilbrigðismála um rúma 17 milljarða króna, sem fara í endurreisn heilbrigðiskerfisins, frekari eflingu þess og endurheimt okkar mikilvæga heilbrigðisstarfsfólks. Þessi framlög undirstrika þá áherslu ríkisstjórnarinnar um að standa vörð um heilbrigðiskerfið og að tryggja samfélaginu sem bestu þjónustu óháð stöðu og efnahag. Þar ber helst að nefna 2,3 milljarða styrkingu á rekstrargrunni Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri til að gera þeim betur kleift að sinna sínum mikilvægu verkefnum innan heilbrigðiskerfisins.

Stigin verða stór skref í að stytta biðlista ásamt því að efla endurhæfingarstarfsemi og heimahjúkrun. Markmið sem við öll erum sammála um.

Velferðarfjárlög

Það sést í fjárlögum þessum að velferð fólks skiptir ríkisstjórnina máli. Framlög til félags- og velferðarmála eru aukin talsvert, og með því stöndum við vörð um viðkvæma hópa samfélagsins og fjárfestum í fólki. Það skiptir máli að sjá til þess að allir hafi tækifæri og hljóti stuðning þegar þess þarf. Það hafa verið blikur á lofti síðustu árin og með þessum fjárlögum er ríkisstjórnin að bregðast við.

Staðan á leigumarkaði hefur versnað og margir eiga erfitt með að standa straum af síhækkandi leigukostnaði samhliða hækkandi útgjöldum heimilanna. Því hefur verið ákveðið að auka húsnæðisbætur um 1,5 milljarða króna. Þannig jöfnum við stöðu fólks á leigumarkaði og hlúum að þeim sem þurfa mest á frekari stuðningi að halda.

Lengi hefur verið kallað eftir auknum tækifærum öryrkja- og endurhæfingarlífeyrisþega á atvinnumarkaði. Það er verðugt verkefni að stuðla að slíkri aukningu, sem minnkar félagslega einangrun þeirra og tryggir okkur aukna þátttöku öflugs mannauðs í samfélaginu og atvinnulífinu.

Einnig verður samningum um notendastýrðra persónulegra aðstoðar við fatlað fólk (NPA) fjölgað með auknum framlögum til málaflokksins. Talið er að ráðstöfunin fjölgi samningum um 50%, sem þýðir að mikill fjöldi þeirra, sem þurfa þessa aðstoð á að halda, geti nýtt sér hana.

Að auki hafa framlög í Fæðingarorlofssjóð verið hækkuð til að stuðla að bættri nýtingu fæðingarorlofs og jafnari skiptingu þess milli foreldra. Þessi hækkun getur bætt stöðu barnafólks til muna, og þá sérstaklega unga foreldra sem eru með marga bolta á lofti, lítið á milli handanna og eru að ná fótfestu bæði á húsnæðismarkaði og í atvinnulífinu.

Ábyrg stjórnun

Þó svo að allt sé reynt til að efla íslenskt samfélag og veita sem bestu þjónustu innan opinbera geirans þá er einnig mikilvægt að við sinnum ábyrgri og skynsamri stjórnun fjármagns. Slík stjórnun er nauðsynleg til lengri tíma þar sem við verðum að tryggja sterkan ríkissjóð til frambúðar og lækka skuldir.

Það er einmitt það sem ríkisstjórnin er að gera. Með fjárlögum þessum er verið að endurheimta styrk ríkissjóðs með lækkun rekstrarhalla og stöðvun á hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Ríkisfjármálum er beitt gegn þenslu og þeirri verðbólgu sem við höfum öll orðið vör við. Dregið verður úr verðbólguþrýstingi og þannig styðjum við efnahag heimilanna og samfélagsins í heild, en það er okkur mikilvægt að styðja við viðkvæma hópa samfélagsins, sem finna mest fyrir áhrifum verðbólgunnar. Lögð er áhersla á að innviðir og grunnþjónusta séu styrkt og viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga.

Fjárlög til bóta

Nú hefur ríkisstjórnin sýnt fjárlögin sín og hvað skiptir hana máli. Það hefur ekki verið einfalt að ná öllum þessum markmiðum í erfiðum aðstæðum þegar hver einasta króna skiptir sköpum. Með skynsemina og markmiðið um að fjárfesta í fólki að leiðarljósi getum við horft bjartsýn til næsta árs. Hjólin eru aftur farin að snúast eftir erfiða tíma. Við ætlum okkur að ná fyrri styrk og byggja á honum, samfélaginu til heilla.

Höfundur er þingmaður Framsóknar og aðalmaður í fjárlaganefnd Alþingis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×