Skoðun

Má ég gæta barnanna minna?

Sigrún Sif Eyfeld Jóelsdóttir skrifar

„Ef þú ætlar að skilja við mig mun ég drepa þig, ég mun ganga frá þér þangað til ekkert verður eftir af þér og gera líf þitt að algjöru helvíti.“ Hann fylgdi þessum orðum eftir með því að toga hana niður stiga svo að skvettist á hann úr vatnsglasinu sem hún hélt á, hann sendi börnin út að leika og nauðgaði henni um hábjartan dag. Allt var í heljargreipum hans og hann undirstrikaði vald sitt með því að rassskella yngra barnið. „Hvað er að þér kona að skvetta á mig?“ Hryllingurinn hélt áfram næstu nótt í þessu fríi fjölskyldunnar, hann kastaði fjölskyldumynd í andlitið á henni svo að hún skildi eftir sig djúpt sár á fleiri stöðum en bara á enninu. „Það mun enginn trúa þér, ég mun sjá til þess.“ Á heimleiðinni var henni hent út úr bílnum og hún skilin eftir við ruslatunnur úti í sveit, hann keyrði í burtu með börnin þeirra í bílnum, hún horfði með tóma vasa og símalaus á eftir börnunum sem öskruðu tryllt af hræðslu í aftursætinu á meðan hann ók í burtu til þess að skilja mömmu þeirra eftir aleina.

Þegar hún lagði loks af stað í þá vegferð að bjarga börnunum sínum út úr þessum aðstæðum óraði hana hvorki fyrir því að málalokin yrðu þau að dómstólar myndu taka yngra barnið frá henni og færa í hendur hans né að hún myndi sitja uppi með málskostnað sem væri henni fjárhagslega ofviða.

Móðirin kýs nafnvernd.Aðsend

Þessi fjölskyldumynd hafði mölbrotnað fyrir löngu. Hún hafði þráð eðlilegt fjölskyldulíf, virðingu, ást, öryggi og gleði, eitthvað sem hún hafði nóg af til að gefa. En hann hafði náð völdum, með óttastjórnun, hann virti engin mörk sem hún reyndi að setja honum, virtist bara vilja ráða og refsa, sama hvað hún reyndi að friða hann. Hann niðurlægði hana og kastaði henni til fyrir framan börnin, tók hana upp á handleggjunum og kastaði henni inn í herbergi á meðan börnin öskruðu óttaslegin. „Þið eigið alveg rétt á að vita hvernig mamma ykkar er, hún er alger aumingi.“ Orðið „AUMINGI“ virtist tattúverað á bakið á henni, „HÓRA“ stóð sem skrifað á ennið á henni, svo oft hafði hann endurtekið þessi orð um hana. Hrindir henni í gólfið, rífur í hárið á henni, ýtir í bakið á henni, brýtur niður hurð, sparkar í húsgögn, kýlir í vegg, alltaf að sýna sitt vald. Hún, auminginn og hóran sem hélt heimilinu á floti, annaðist börnin án hans þátttöku, eldaði hollan mat, borgaði reikningana, var í formi, stóð sig vel í vinnunni og reyndi að halda fjölskyldumyndinni heillegri útávið. Á meðan vildi hann fá að drekka í friði, ríða hvort sem hún vildi það eða ekki og fíla sig flottan. Hann tók peningana hennar af henni, setti á sinn reikning því hann ætlaði að ávaxta þá. Hún þrábað hann um að láta sig fá peningana, en hann hlustaði ekki á það. Um hver mánaðarmót grátbað hún hann um að leggja inn á sig því útgjöld heimilisins voru að mestu leyti á hennar nafni. En alltaf skyldi riðið „það nennir enginn heilvita maður að vera með konu sem nennir ekki að ríða.“ Hún lét undan því það var illskárra að ljúka því af heldur en að hafa hann frussandi reiðan. Hún var alltaf hrædd, alltaf á varðbergi, alltaf að passa að börnin yrðu sem minnst vör við þetta ógnarástand, alltaf að reyna að bjarga fjölskyldunni sinni. Ef til vill var það þess vegna sem henni var ekki trúað þegar hún loks sagði frá ofbeldinu, hún hafði haldið myndinni of fallegri útávið svo lengi. Eða kannski var það af því hún var svo ógeðslegur aumingi og hóra sem nennti ekki að ríða?

Þau voru þung skrefin að stíga út úr þessum ofbeldisaðstæðum, kjarkað afrek hennar sem þó útheimti lögregluaðgerð vegna líflátshótana frá manninum sem hún hafði stofnað fjölskyldu með. En ofbeldið hætti ekki þá, martröðin hélt áfram. Velferðarsamfélagið með kerfið sem átti að grípa hana og börnin og vernda þau hefur brugðist þeim á öllum stigum. Þegar að hann hafði komið í veg fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir eldra barnið með ógnandi hegðun sinni og hótunum til fagaðila og numið yngra barnið á brott og haldið því í öðrum landsfjórðungi í marga mánuði, án nokkurs sambands við mömmu sína og eldra systkin, var hún tilneydd til að fara af stað í forsjármál. Hún hefur þurft að berjast fyrir því eins og ljón að börnin fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, en bæði þarfnast þau lyfja og eftirlits lækna og annarra sérfræðinga. Baráttuna hefur hún háð við föður barnanna og eins furðulegt og það hljómar, að því er virðist einnig í óþökk barnaverndaryfirvalda og dómstóla.

Íslenskum barnaverndaryfirvöldum ber skylda til samkvæmt lögum að vernda börn gegn hverskyns ofbeldi. Hefðu hlutaðeigandi stjórnvöld veitt þá vernd sem þeim ber að veita og siðferðileg skylda til að gera, þá hefði málið ekki þurft að fara fyrir dómstóla sem forsjármál. Barnaverndarstofa hafði gert formlegar og alvarlegar athugasemdir um að lögum og reglum hafi einfaldlega ekki verið fylgt við meðferð mála barnanna hjá barnavernd. Ekki hafi verið kannaður allur sá fjöldi ábendinga sem barst frá löggæsluaðilum, skólum, heilbrigðisstarfsmönnum og frásagnir barnanna um andlegt og líkamlegt ofbeldi hans í garð þeirra og móður þeirra, sem þó gáfu rökstuddan grun um að ofbeldi hefði átt sér stað. Neitun hans ein dugði til. Barnavernd ályktaði síðan út frá því að hafa ekki kannað ofbeldið, að ekkert ofbeldi hefði átt sér stað. Sýslumaður hló með ofbeldismanninum að móðurinni í sáttameðferð, rétt eins og ofbeldið sem hún benti á væri fráleitt. Svona hélt kerfið áfram að níðast á henni með ofbeldismanni hennar, og veitti honum byr undir báða vængi í áframhaldandi valdi yfir henni og börnunum.

Þrátt fyrir athugasemdir Barnaverndarstofu dæmdu dómstólar í samræmi við niðurstöðu barnaverndar um að ekkert ofbeldi hefði átt sér stað af hans hálfu. Móðirin var skömmuð fyrir að kalla sig þolanda heimilisofbeldis í réttarsal. Ofbeldið fékk þar með endanlega titilinn „ágreiningur“ og dómari skipti forsjá systkinanna upp á milli foreldranna. Dómara ber samkvæmt barnalögum að taka tillit til þess við ákvörðun varðandi forsjá og umgengni hvort hætta sé á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi. Móðir barnanna hefur leitað allrar þeirrar aðstoðar sem hún átti kost á frá fagaðilum, dvalið í Kvennaathvarfinu, leitað til Bjarkarhlíðar, leitað læknisaðstoðar, farið í áfallameðferð, verið greind með áfallastreituröskun, margoft þurft að kalla til lögreglu vegna áreitis og innbrots og fleira. Enginn af þeim aðilum sem hafa veitt henni aðstoð hafa efast um að hún hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi. Eldra barnið, sem áður hafði verið dæmt í umgengni undir eftirliti í tvær klukkustundir á mánuði, á nú að fara í umgengni aðra hvora helgi til föður. Samkvæmt fagaðilum og skriflegu áliti frá óháðum sálfræðingi á vegum barnaverndar, þótti óráðlegt að þvinga barnið í umgengni til hans, ótti barnsins var metinn trúverðugur og átti réttlætanlegar ástæður sem raktar voru til föður. Að minnsta kosti þrír fagaðilar sem reyndu að hjálpa börnunum höfðu sjálfir orðið fyrir hótunum og/eða ógnandi hegðun föður. Samt ályktar dómari að barnið beri ekki ótta til föður síns og sakar móður um tálmun á umgengni. Yngra barnið var dæmt alfarið í forsjá hans, móðir hefur því misst forsjá yngra barnsins og systkinin hafa verið aðskilin. Barn sem greint hefur frá ofbeldi foreldris hefur verið dæmt í forsjá þess og náin systkini eru nú alin upp á sitthvoru heimilinu. Sú staðreynd að faðirinn hafði numið barnið á brott og haldið frá móður í marga mánuði var afsökuð með því að dómari teldi það einungis jafngilt því að móðir hefði takmarkað umgengni eldra barnsins við föður, þó það væri í samræmi við fyrri úrskurð og ráðleggingar fagaðila á vegum barnaverndar. Dómstóllinn afsakaðiþannig skeytingarlausa hegðun föður gagnvart börnunum með því að gera verndandi hegðun og löghlýðni móður tortryggilega.

Niðurstaða dómsins var einnig sú að móðir skyldi bera meginkostnaðinn af málinu sem rekið var á milli landshorna og endaði í rúmum 20 milljónum króna. Umsókn hennar um gjafsókn úr ríkissjóði var hafnað þar sem tekjur hennar voru yfir viðmiðunarmörkum sem eru mjög lág eða sem nemur 3,8 milljónum samtals í árstekjur. Engin ein móðir með millitekjur stendur undir þvílíkum málskostnaði, nema hún ætli að ráðstafa öllum útborguðum mánaðarlaunum í skuldina til lengri tíma, sleppa því að borða, sjá fyrir börnum og búa í húsnæði. Kostnaðurinn er henni því fyrirsjáanlega ofviða miðað við efnahag sem þýðir reyndar líka að hún uppfyllir skilyrði Gjafsóknarnefndar fyrir gjafsókn sem nefndin hefði með réttu átt að horfa til. Fjárhagsstaða hennar er eftir þetta svo þröng að hún getur ekki sótt sér þá sérfræðiþjónustu sem hún sjálf þarfnast, tannlæknaþjónustu, sálfræðiaðstoð og aðra sérlæknaaðstoð, til að vinna sig út úr þeim áföllum og ofbeldi sem hún hefur orðið fyrir, bæði í nánu sambandi og af hálfu kerfisins.

Þykir okkur þetta sem samfélagi þá vera hæfileg refsing fyrir að fara út úr ofbeldissambandi og reyna að vernda börnin sín? Tuttugu milljóna króna sekt og að missa annað barnið frá sér? Skipta nánum systkinum upp á milli heimila eins og eignum til að róa „ágreininginn“ ? Hver á að bera ábyrgð á því að kerfið hefur brugðist? Er það þessi móðir og börnin hennar?

Hvernig samfélag kemur fram við konur og börn afhjúpar raunverulega velferð þess, framkoma réttarkerfis setur einfaldlega lagalega umgjörð um hvernig gildismati samfélagsins er háttað. Það má til sanns vegar færa að eitt það helsta sem ógnar heimsfriði og viðheldur pólitískum óstöðugleika í veröldinni sé knýjandi löngunin til að endurheimta „meðfædd“ karllæg yfirráð, ásamt vangetu karla til að takast á við tilfinningar sínar vegna framfara og frelsis kvenna almennt. Löngunin til að drottna yfir öðru fólki, hópum, þjóðum eða landi sem er knúin áfram af þessum sálrænu hvötum, er samsvarandi þeirri ógn sem steðjar að konum og börnum í heimilisofbeldi.

Í nýlegri opinberri skýrslu, frá nefnd Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (GREVIO), um stöðu málaflokksins hér á landi, er þungum áhyggjum lýst af meðferð sýslumanna, dómstóla og barnaverndaryfirvalda á málum þolenda heimilis- og kynferðisofbeldis, þegar kemur að ákvörðun um umgengni, lögheimili og/eða forsjá barna eftir skilnað eða sambúðarslit foreldra. Áhyggjurnar snúa að því að ekki sé nægilega mikið gert af hálfu íslenskra stjórnvalda til að gæta að öryggi kvenna og barna í málavinnslunni. Nefndin gagnrýnir meðal annars harðlega, í þessu samhengi, notkun hugmynda sem skortir vísindalegt réttmæti; að málin séu afgreidd þannig hjá barnaverndaryfirvöldum, dómstólum og sýslumanni að ofbeldi hafi ekki átt sér stað, þegar ofbeldi fær næga stoð í gögnum, að enginn ótti sé til staðar hjá barni sem það tjáir og að móðir innræti barni að hafna umgengni við föður. Mál þessarar móður og barna sem farið er yfir hér er hryggilegt skólabókardæmi um hvernig íslenska kerfið bregst með alvarlegum hætti.

Lagakerfið viðheldur tortryggni í garð þeirra kvenna sem hafa þolað ofbeldi. Þetta viðbragð sem hlutaðeigandi íslensk stjórnvöld hafa tamið sér, að stilla til friðar með því að hemja konur með valdbeitingu og festa þannig í sessi húsbóndavald karla sem beita ofbeldi, er ekki komið til þrátt fyrir framfarir Íslands á sviði kynjajafnréttis, heldur er betur lýst sem bakslagi vegna vaxandi réttinda og frelsis kvenna síðustu áratugina. Konur eru allt í senn látnar bera ábyrgð á því að koma sér úr ofbeldisaðstæðum, leita sér hjálpar og vernda börnin en svo er þeim er refsað fyrir að hafna hlutverkinu sem hefðbundin stofnun hjónabands við karl hefur skilgreint þeim. Börnin eru mannfallið. Í tölum ríkislögreglustjóra um heimilisofbeldi frá janúar til september árið 2022 kemur fram að af þeim 833 tilkynningum sem bárust tímabilinu, voru 211 þeirra vegna ofbeldis af hendi fyrrum maka. Það vantar ekki tölfræðina um tíðni ofbeldis gegn konum en það er augljós djúpstæður vandi í kerfinu okkar, illkynja viðhorf til kvenna og barna sem segja frá ofbeldinu hefur sest þar að.

Þolendur eru ævinlega hvattir af stjórnvöldum til að „segja frá“ en það eru sömu stjórnvöld sem munu síðan nota það gegn þeim að hafa gert það. Suma daga óskar hún þess að hafa ekki farið frá honum og að hafa aldrei sagt neitt, frekar dáið hægum dauðdaga inni á heimilinu – því það sem hefur mætt henni eftir að hún fór er óbærilegra en hún hefði nokkurn tímann getað ímyndað sér. Hún hefði þá að minnsta kosti getað reynt að vernda börnin frá honum heima. Umrædd móðir vill koma þeim skilaboðum áleiðis að konum og börnum sem eru þolendur heimilisofbeldis er ekki óhætt að segja frá ofbeldi. Íslenska kerfinu, barnavernd og dómstólum, er ekki treystandi til að veita þeim vernd, og þeim verður refsað ef þau segja frá. Ég ætla að leyfa mér að skilja ykkur eftir með þá hugsun.

Þeim sem vilja styrkja þessa móður vegna málskostnaðar er bent á sérstakan söfnunarreikning á vegum samtakanna Líf án ofbeldis: 0133-15-002868, kt. 510820-0880

Sigrún Sif er talskona og í stjórn samtakanna Líf án ofbeldis. Móðirin kýs nafnvernd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×